144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

samkeppni í mjólkuriðnaði.

[11:13]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að bregðast skjótt við beiðni minni um að koma hingað og ræða við þingheim um samkeppni, eða öllu heldur samkeppnisleysi í mínum huga í mjólkuriðnaði, af ærnu tilefni.

Fyrst langar mig að hafa nokkur orð um þýðingu samkeppninnar. Samkeppni er ekki bara einhver kredda eða meinloka í ungum hægri mönnum. Samkeppni og möguleiki á samkeppni er einn af hornsteinum frjáls, opins, lýðræðislegs samfélags. Samkeppnislög eru grundvallarlög. Þau veita einstaklingum vernd og færi á að spreyta sig. Eitt einkenni fagurs samfélags og fagurs mannlífs er að fólk fái tækifæri til að spreyta sig á því sem það vill gera og telur sig gott í. Ef einhver telur sig góðan í að framleiða ís eða ost eða sýrðan rjóma eða jógúrt þá á hann að fá tækifæri til þess.

Ein meginhættan í svona umhverfi felst í ofríki hinna stóru, þeirra sem eru fyrir á markaði, þeirra sem eru fyrir á fleti. Samkeppnislöggjöfin og eitt megininntak hennar er að vernda litla aðila, nýja aðila, þá sem vilja spreyta sig, gegn ofríki hinna stóru. Þetta hefur tekist í mjólkuriðnaði víða annars staðar en hefur algjörlega mistekist á Íslandi. Það er beinlínis ákvæði í lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sem gerir mjólkuriðnaðinn undanþeginn samkeppnislögum. Ég fullyrði að þetta sé hvergi svona. Víða eru sérlög um framleiðslu á landbúnaðarvörum en ég held að hvergi njóti mjólkuriðnaður eða landbúnaður undanþágu frá samkeppnislögum. Alls staðar eru hinir smáu verndaðir gegn ofríki hinna stóru. Þetta er lykilatriði.

Nýlegur úrskurður Samkeppniseftirlitsins er grafalvarlegt mál. Hann felur í sér aðför að grunngildum opins, lýðræðislegs samfélags. Það er grundvallarspurning í þessari umræðu hvort hæstv. ráðherra ætli ekki að beita sér fyrir því að samkeppnisvæða þetta umhverfi.

Kerfið sem við höfum komið á um landbúnaðarframleiðslu á Íslandi er að mörgu leyti úrelt og þunglamalegt. Maður þarf ekki að lesa lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum lengi til að sannfærast um að kerfið sé úrelt. Ég held að þessu hafi verið komið á í veröld þar sem óttinn við offramleiðslu var talsverður. Offramleiðslu gætti mjög mikið á 20. öldinni. Hún er vissulega alvarlegt mál ef hennar gætir. Hún getur leitt til fjöldagjaldþrota í landbúnaði. Ég held mögulega að það séu ein sterkustu rökin fyrir því að það þurfti einhvers konar framleiðslustýringu og lög sem vernda landbúnað.

Við búum í breyttum heimi. Núna er umframeftirspurn eftir matvælum. Við þurfum ekki þessa miklu vernd. Við þurfum frelsi. Við þurfum að innleiða samkeppni. Mjólkursamsalan flytur núna út vörur. Hún gerir það í gegnum fyrirtæki á Norðurlöndum sem hafa notið verndar samkeppnislaga þar, en á sama tíma nýtur Mjólkursamsalan undanþágu frá samkeppnislögum hér. Hún skákar í skjóli samkeppni annars staðar. Samkeppni á erindi í mjólkuriðnaði. Það myndaðist hér á tímabili samkeppni um umframmjólk þegar nýr aðili vildi kaupa umframmjólk af bændum. Það leiddi til hærra verðs á mjólk til bænda og lægra verðs til neytenda. Það er talað um hagræðingu í greininni. Ég vil hagræðingu vegna samkeppni en ekki hagræðingu sem hlýst af einokun og gallaðri löggjöf.

Ég held að við þurfum grundvallarátak í að endurskoða landbúnaðarkerfið og innleiða samkeppni (Forseti hringir.) í þennan geira markaðarins. (Forseti hringir.) Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir sýn hans á þessi mál.