144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

samkeppni í mjólkuriðnaði.

[11:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vert að hafa í huga að sú undanþága sem mjólkuriðnaðurinn nýtur samkvæmt 71. gr. búvörulaga er ekki ótakmörkuð. Það er afar vel rakið í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins. Samkvæmt lagagreininni er afurðastöðvum heimilt að sameinast, að gera samkomulag um verkaskiptingu milli samlaga og eiga samstarf til að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu. Hvergi er að finna heimild til að beita því sem heitir á erlendum tungumálum „predatory pricing“ og felst í því að verðleggja með ólíkum hætti til samkeppnisaðila og skyldra aðila. Það er annars konar framganga en sú sem leyfð er með þessari undanþágu. Þess vegna var niðurstaða Samkepniseftirlitsins sú sem hún varð og þess vegna er hún efnislega rétt.

Það þyrfti sérstaka lagaheimild til þess að heimila að beita ólíkri verðlagningu á skylda og óskylda aðila. Það er misnotkun á markaðsráðandi stöðu samkvæmt öllum kennslubókum í samkeppnisrétti. Það er hvergi í undanþágunni heimild til að beita misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Virðulegi forseti. Ég rakti hér áðan nýjar hugmyndir sem eru að hasla sér völl innan landbúnaðarins. Forsvarsmenn ungra bænda hafa sett fram skynsamlegar hugmyndir um sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað sem geti falist í því að brjóta af greininni það kerfi hafta og fákeppni sem hefur haldið aftur af vöruþróun í greininni og afkomumöguleikum bænda og náð á sama tíma því takmarki að bæta hag neytenda. Mér finnst hæstv. landbúnaðarráðherra gefa hér til kynna að hann sé ekki kominn mjög langt á þeirri vegferð. Það er óskandi að stjórnarmeirihlutinn átti sig á því að það eru sóknarfæri í breytingum fyrir bændur (Forseti hringir.) og fyrir neytendur. Það er mikilvægt að grípa þau tækifæri.