144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

samkeppni í mjólkuriðnaði.

[11:26]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Á Íslandi eru um 660 kúabændur. Þessir 660 einyrkjar hafa komið sér sameiginlega upp samvinnu um fyrirtæki sem heitir MS til að annast milligöngu og vinna afurðir á eins hagkvæman og ódýran máta og mögulegt er fyrir sjálfa sig og neytendur. Að neytendahliðinni hafa verkalýðssamtök einnig komið, ASÍ og BSRB, í gegnum verðlagsnefndir til að ákveða verð á þessum afurðum. Með öðrum orðum, þetta eru lausnir sem byggja á samvinnu og jöfnuði, þetta eru lausnir samvinnu og jafnaðarsamfélagsins. Einmitt það er mörgum þyrnir í auga. Af hvaða ástæðum? Pólitískum. Ég segi: Eigum við ekki að skoða málið praktískt fremur en pólitískt?

Ég tek undir með málshefjanda að það þurfi að verja hinn veikasta. Hver er hann? Það er tekjulítið fólk á Íslandi sem vill kaupa mjólk og mjólkurafurðir. Er það rétt sem MS, fyrirtæki bændanna, fullyrðir að mjólk og mjólkurafurðir hafi á síðustu tíu árum lækkað að raunvirði um 20–30% og varið hag bændanna líka, náð niður kostnaði um 3 milljarða á ári, 2 milljarða fyrir neytendur og 1 milljarð fyrir bændur? Er þetta rétt? Eigum við ekki að skoða það?

Það eru fleiri sem koma að mjólkurframleiðslu og mjólkurdreifingu. Það er verslunin. Verslunin hefur líka verið með staðhæfingar. Það var gerð skýrsla fyrir Verslunarráð Íslands 2012 sem sýndi fram á að framlegð í verslun væri minni hér á landi en í grannríkjum okkar. Þarna eru sóknarmöguleikar fyrir neytendur.

Nú skora ég á alla þá sem að þessum málum koma, ekki bara Bændasamtökin heldur BSRB, ASÍ og Verslunarráð Íslands að setjast sameiginlega (Forseti hringir.) yfir þessi mál á praktískum forsendum fyrir hinn veikasta í samfélaginu, (Forseti hringir.) fyrir íslenska neytendur, (Forseti hringir.) og verja kerfið ef það hefur skilað (Forseti hringir.) og skilar árangri og sækja fram (Forseti hringir.) þar sem það á við. Það er ekki síst í versluninni.