144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

samkeppni í mjólkuriðnaði.

[11:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er mjög áhugavert mál vegna þess að svo virðist vera sem raunhækkun hafi verið á afurðaverði þannig að þeir sem framleiða mjólk hafa fengið meira fyrir sinn snúð á sama tíma og raunlækkun hefur verið á mjólkurverði. Neytendurnir hafa því fengið vöruna á lægra verði. Hvað stendur þarna á milli? Það er Mjólkursamsalan og kerfið sem er búið að setja upp sem hefur leitt til þessarar hagræðingar.

Ég kann þetta mál ekki í þaula en það virðist vera sem þetta sé afrakstur kerfis sem drepur aftur á móti niður samkeppni. Litli maðurinn á markaðnum þrífst ekki í þessu umhverfi. Þetta batterí, þetta kerfi heimilar undanþágur frá samkeppnislögum.

Þá kemur hin spurningin: Hvað hefði gerst ef það hefði verið frjáls samkeppni á þessum markaði? Hefði frjáls markaður ekki náð sama árangri og þetta ríkisbatterí hafta og undanþágu frá samkeppnislögum? Það finnst mér stóri, áhugaverði þátturinn í þessu máli.

Ef við komumst að þeirri niðurstöðu að með lögum og höftum gegn samkeppni getum við náð fram meiri skilvirkni, a.m.k. á þessum markaði, hvað ætlum við þá að gera? Ætlum við þá að láta skilvirknina á markaðnum ráða eða atvinnufrelsi einstaklinga til að stunda viðskipti á þessum markaði? Hvað verður þá ofan á? Verður það hagkvæmnin eða frelsi í viðskiptum, atvinnufrelsi?