144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

samkeppni í mjólkuriðnaði.

[11:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég tel ástæðu til að þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu því að ég vænti þess að hún verði kannski til að dýpka skilning manna og dýpka þá umfjöllun sem hefur verið ansi mikið í eina átt undanfarna daga.

Fákeppni kemur að jafnaði niður hvort tveggja á neytendum og framleiðendum, en þó er það þannig að mjólk er undir opinberri verðlagningu og verðlagseftirliti og/eða framleiðslustýringu hins opinbera hér á landi og í nágrannaríkjum okkar beggja vegna Atlantsála. Fyrirkomulagið sem var komið á hér 2004 hefur sannað sig í því að að mjólk og mjólkurvörur hafa hækkað minna en neysluvöruvísitala en jafnframt skilað þeim árangri að bændur bera meira úr býtum. Hagræðingin hefur skilað þessu og er það vel.

Þó er nauðsynlegt að öll mannanna verk séu tekin til skoðunar öðru hverju og því er það fagnaðarefni að hæstv. landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að kalla eftir skýrslu frá Hagfræðistofnun Háskólans Íslands og stofna þverpólitíska nefnd til þess að fara yfir þetta mál.

En leið mjólkurvara frá bændum til neytenda endar ekki hjá vinnsluaðilum, hún endar í versluninni, hún endar í smásöluverslun. Þar vantar mikið upp á að samkeppnin sé næg og það er efni í aðra sérstaka umræðu.

Í verslun hefur ekki orðið viðlíka hagræðing og í landbúnaði, það er ljóst. Samkvæmt McKinsey-skýrslunni er hér 20% ofmönnun í verslun og hæstu fermetratölu á mann sem þekkist í nágrannalöndum. Auðvitað verðum við að taka þessa umræðu heilt yfir. Það er þó ljóst að þeir sem hafa yfirburðastöðu á markaði gangast undir samfélagslega ábyrgð (Forseti hringir.) sem fylgir slíkri stöðu og þeir þurfa að standa undir henni, hvort sem það er mjólkuriðnaðurinn, smásöluverslunin eða hver sem það er. Og menn þurfa (Forseti hringir.) að hafa til að bera næga auðmýkt gagnvart umbjóðendum sínum til þess að hlusta á þá.