144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

samkeppni í mjólkuriðnaði.

[11:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tel mig vera mikinn jafnaðarmann og þarf kannski að taka við því hlutverki af sumum hér sem telja sig vera það líka. En ég tel að það sé eðlilegt að endurskoða samkeppnislög og tryggja rétt smærri úrvinnsluaðila á aðgengi að hráefni á sama verði. En við skulum ekki gleyma því að veruleikinn er ekki bara svartur og hvítur, ekki í þessu máli frekar en öðrum. Það hefur orðið gífurleg hagræðing í mjólkuriðnaði í landinu sem hefur verið sársaukafull fyrir samfélögin, neytendur og bændur. Hagræðingin hefur skilað neytendum vörulækkun, raunlækkun vöruverðs á mjólkurvörum og bændur hafa líka að einhverju leyti notið þess. En ég tel að strax í upphafi, þegar mjólkuriðnaðurinn sameinaðist og fékk undanþágu að hluta til frá samkeppnislögum, hefði átt að setja skýr skilyrði. MS, með sína ráðandi stöðu í söfnun mjólkur alls staðar að af landinu, hefði þurft að gangast undir þá skyldu að selja áfram mjólk og hráefni til annarra smærri úrvinnsluaðila í greininni á sama verði, hvort sem það eru skyldir eða óskyldir aðilar.

Þannig væri hægt að tryggja samkeppni í úrvinnslu mjólkur og fjölbreytta flóru fyrirtækja sem kæmu inn með nýjar vöru og vöruþróun eins og hefur verið að gerast hjá Örnu í Bolungarvík og fleiri fyrirtækjum. Mjólkursamsalan hefur ekki verið neinn engill, ég ætla ekki að segja annað hér, og við vitum alveg að þar hafa orðið brestir. Það þarf að tryggja að samkeppnislög séu ekki brotin, það eigum við ekki að líða. En hugmyndafræðina á bak við regluverk Mjólkursamsölunnar, að bændur hvar sem er á landinu fái sama verð fyrir sína vöru og líka að smásöluverslunin fái vöruna á sama verði frá MS, tel ég vera jafnaðarstefnu sem nýtist neytendum. Við eigum ekki að brjóta upp regluverk sem hefur gagnast vel en við eigum að endurskoða þá þætti sem snúa að (Forseti hringir.) samkeppnishæfni smærri aðila. Það er hægt að gera án þess að (Forseti hringir.) rústa því kerfi sem hefur stuðlað að jöfnuði á milli neytenda, (Forseti hringir.) bænda og haft þau áhrif að lækka vöruverð í landinu í þessum geira.