144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki endanlega gert upp hug minn í þessu máli en eftir umræðu gærdagsins hallast ég aðeins að græna pakkanum, aðeins meira en áður. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson fór hér yfir ýmis gögn sem ég hefði mikinn áhuga á að fá afrit af og kynna mér mjög gaumgæfilega.

Mig langaði að forvitnast um það hvernig hv. þingmaður mundi útskýra það að síðastliðin 15 ár hefur gríðarlegur árangur náðst í baráttunni gegn unglingadrykkju á Íslandi og reyndar í baráttunni gegn fíkniefnaneyslu yfir höfuð — og áfengi er fíkniefni eins og hvert annað, nema það er harðara en flest ólögleg efni ef út í það er farið. En þessi árangur hefur náðst, hann er óumdeildur, hann er ótvíræður, hann er skýr.

Á sama tíma hefur aðgengi að áfengi í vínbúðum hins vegar aukist og maður hefði haldið að þróunin væri öfug. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti útskýrt þetta mynstur fyrir mér.