144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:10]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru ansi margar spurningar, ég veit ekki hvort ég treysti mér til að svara þeim öllum. Hv. þingmaður veltir því fyrir sér hvort rannsóknirnar sem hér er vitnað til, og almennt er stuðst við, séu áreiðanlegar og hvort þær taki tillit til aðstæðna á Íslandi.

Að sjálfsögðu hafa þessar rannsóknir ekki verið gerðar á Íslandi, þær hafa verið gerðar í ýmsum fylkjum Bandaríkjanna, í Kanada, í Svíþjóð, í Finnlandi og alls staðar er niðurstaðan hin sama: Unglingadrykkja eykst og vandamál tengd áfengi færast í vöxt.

Fíkniefni eru vissulega vandamál en lausnin á þeim vanda er ekki að auka aðgengi að áfengi, ég held að það muni ekki draga úr tíðni sjálfsmorða, þunglyndis eða annarra áhættuþátta sem leiða síðan til annarrar neyslu. Ég veit að hv. þingmanni er mjög umhugað um þessi mál eins og okkur öllum og ég er viss um að þegar hann hefur kynnt sér þessar skýrslur (Forseti hringir.) gaumgæfilega þá mun hann hugsa sig um.