144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:12]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað erum við að berjast gegn öllum vímuefnum og við leggjum til í þessu frumvarpi að áfengisvarnir verði efldar. Við erum að segja að þessi þáttur hafi ekki jafn mikil áhrif og menn ætla miðað við þær aðstæður sem eru nú þegar við lýði. Aðgengið er gott í dag og sýnileikinn mun ekki aukast eins og frumvarpið er byggt upp.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann, sem ég tel vera mjög talnaglöggan mann: Ef þeir stóru sem geta gert allt í stærðarhagkvæmni treysta sér ekki í svona lága álagningu, hvað erum við þá að borga mikið með rekstri vínbúðanna? Ef stóru aðilarnir með alla sína yfirbyggingu og hagræðingarkröfur geta ekki sætt sig við þessa álagningu, hvernig geta þá vínbúðirnar rekið verslanir með þessa vöru en enga aðra?