144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:15]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum vissulega þá sykurafurð sem er vínandi. Ég geri mér fulla grein fyrir óhollustu sykurs eins og aðrir og tel mjög mikilvægt að neytendum sé fyllilega gerð grein fyrir magni sykurs í þeim vörum sem þeir láta ofan í sig; hve mikið er af viðbættum sykri og hversu óhollur hann er. Ég held að við séum rétt að byrja á þeim forvörnum sem þurfa að eiga sér stað. Ef forvarnir duga ekki þarf hugsanlega að ganga lengra og setja tolla og skatta á sykur. Ég held að þau vörugjöld sem nú eru á sykri dugi ekki til þess að draga úr neyslu. Þau draga hugsanlega úr vilja framleiðenda til að bæta sykri í vörurnar, þó að ég hafi ekki séð þess merki. Ég hef athugað hvort sykurinnflutningur hafi dregist saman í magni við þessa skatta, hann hefur kannski aukist hægar en hann hefði ella gert en hann hefur vissulega aukist.

Ég er því að velta fyrir mér hvort sú leið sé endilega sú besta en ég held að forvarnir séu núna eitt það mikilvægasta sem við gætum gert til að draga úr sykurneyslu. Við erum enn þá á því stigi.