144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Jæja, gott er að vera kominn í suðrið aftur. Þá spyr ég aftur, því að þingmaðurinn virðist vera sammála því að sykur sé skaðlegur fyrir heilsuna og sé ákveðin vá, vilja sumir þingmenn meina, þegar kemur að lýðheilsu barna. Nú ef sykurskatturinn, vörugjöldin, eru ekki nóg, ber þá að afnema þau, ef það gæti samt sem áður haft afleiðingar til hins verra, svo að ég viti bara hvar hv. þingmaður stendur hvað þetta varðar, ef ekki dugir að hækka vörugjöld eða skatta og tolla á sykur. Við viljum í alvörunni að lýðheilsusjónarmið hvað varðar börn nái fram að ganga og forvarnir duga kannski skammt. Eigum við þá að fara í það að setja slíka vöru utan seilingar barna í búðum?

Ég veit alveg að þegar ég fer í búðina með dóttur mína og hún sér kókómjólk þá vill hún fá kókómjólk. Varan er klárlega staðsett þar sem börn sjá hana og kalla eftir henni. Hvar stendur þingmaðurinn hvað þetta varðar, (Forseti hringir.) þessi lýðheilsusjónarmið? Eigum við þá að setja þessa vöru á sérstakan stað þar sem börn sjá hana ekki?