144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:18]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Frosta Sigurjónssyni sérstaklega fyrir þessa ræðu. Hann er fyrsti þingmaðurinn sem talar af hálfu Framsóknarflokksins við þessa umræðu og ég vona að þetta sé til marks um að Framsóknarflokkurinn sé að reisa að húni lýðheilsufánann sem hann hefur löngum staðið vörð um hér í þingsal og í samfélaginu almennt.

Ég hlakka til að heyra aðra fulltrúa Framsóknarflokksins tjá sig um þetta mál. Við höfum gert það í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, við lítum á þetta sem lýðheilsumál og heilbrigðismál að uppistöðu til. Við höfum heyrt formann þingflokks Samfylkingarinnar tala á svipuðum nótum, einnig fyrrverandi heilbrigðisráðherra, hv. þm. Guðbjart Hannesson, og ég hlakka til að heyra sjónarmið annarra flokka.

En talandi um að halda merki að húni, hv. þingmaður er formaður efnahags- og viðskiptanefndar (Forseti hringir.) og gætir væntanlega þeirrar nefndar og hagsmuna hennar. Hver er hans afstaða til sjónarmiða sem komu fram í gær (Forseti hringir.) um að þetta mál eigi að ganga til þeirrar nefndar?