144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:38]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Betra aðgengi? Já, ég get alveg tekið undir það að þegar þú kemur inn í þessar verslunarmiðstöðvar sérðu þessar vínbúðir, en þú ferð eiginlega aldrei með börnin þín inn í þessar verslanir. Það er kannski meginmunurinn í sambandi við aðgengið að þú ferð með börnin þín í matvöruverslanirnar þar sem þú verslar í matinn en þú ferð ekki með börn í áfengisverslanir. Það er bara þannig. Auðvitað kemur það ábyggilega fyrir, en í hvert einasta skipti sem þú færir í matvöruverslunina, og héldir í höndina á barninu þínu, sæirðu áfengið og þá breytir engu þó að það væri úti í horni.

Eitt af þeim skilyrðum sem ég var að tala um, sem ég var að velta fyrir mér, var að hafa þessa vöru einhvers staðar úti í horni sem væri lokað og enginn færi inn. Þá þyrfti að redda pössun fyrir utan fyrir foreldra sem fara inn og kaupa áfengi.

Ég held að það sé stór munur á þessu. Það er þessi stóri munur að þú ferð með börnin þín með þér í matvöruverslanirnar en þú ferð ekki með þau í áfengisverslanir. Það er kannski ekki algilt en ég held það, að börnin muni sjá þetta meira.