144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:43]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég held ekki. Það eru gríðarlegir peningar í áfengisgjaldinu, ég hef töluna ekki alveg á hreinu, en ég tel að við eigum bara alls ekki að fara í þetta. Það er vissulega mjög spennandi og áhugaverður þáttur að láta 5% áfengisgjaldsins renna í lýðheilsusjóð, það er ótrúlega freistandi, vegna þess að ég vil auka forvarnir miklu meira, en ég held að ég mundi aldrei vilja samþykkja þetta frumvarp.

Ég held að við ættum samt sem áður að einbeita okkur að því að setja meira fjármagn í þennan málaflokk eins og marga aðra. Þessi málaflokkur er gríðarlega mikilvægur. Ég var til dæmis í gær í Háskólabíói hjá SÁÁ. Þeir eru enn að fara af stað með landssöfnun til að byggja við, biðja fólk um að hjálpa sér til að byggja við, fólkið sem hefur byggt upp þessa aðstöðu sem hefur bjargað svo mörgum mannslífum. Ég held að ég mundi ekki vilja samþykkja þetta frumvarp, sama hvað.