144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann geri ekki greinarmun á fylliríisdrykkju annars vegar og hófsemdardrykkju hins vegar. Nú eru Íslendingar upp til hópa, með fullri virðingu fyrir landi og þjóð, óttalegar fyllibyttur. Þótt hægt sé að tala um tölur um heildarmagn og slíkt og reyna að vinna eitthvað alfarið út úr þeim þá hljótum við að þurfa að horfa til þess hvernig neyslan brýst út og með hvaða afleiðingum. Mér finnst vanta svolítið í þessa umræðu hvaða afleiðingum neyslan veldur vegna þess að það skiptir máli hvort einhver er að drekkja sorgum sínum eða hvort hann er að peppa sig upp til að fara og lemja einhvern niðri í bæ eða hvort hann er að fá sér rauðvín með matnum. Það er eðlismunur á þessu neyslumynstri og vandamálum sem brjótast út í kjölfarið.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann teldi þetta ekki vera eitt af því sem við ættum jafnvel helst að líta til þegar við tökum ákvarðanir eins og þessar.