144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[13:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Þar er lagt til að hefja innleiðingu aukins frelsis á Íslandi með því að nema brott ríkiseinokun á áfengissölu. Á undanförnum árum hefur margt breyst hvað varðar frelsi í viðskiptum á Íslandi. Hið opinbera hefur á flestöllum sviðum dregið sig út úr atvinnurekstri þar sem talið er að einstaklingar og fyrirtæki geti stundað viðkomandi starfsemi betur, eða a.m.k. jafn vel og ríkið. Einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi hafa verið leiðarljósið í þeim miklu breytingum. Þegar við sjáum dæmi þess að ríkið standi í verslunarrekstri er þar um fullkomna undantekningu að ræða. Við erum að ræða eina þeirra. Það eru auðvitað fjölmörg svið sem þar liggja undir sem sagan geymir og margoft hefur verið fjallað um í sölum þingsins.

Hér hefur mikið verið rætt um hugmyndafræðina að baki því að ríkið annist þessa sölu og standi í rekstri áfengisverslana. Rökin sem eru færð fram af andstæðingum þessa máls eru kunnugleg. Þetta eru sömu rökin og voru notuð þegar menn mótmæltu því að bjór yrði fluttur til Íslands. Þetta eru sömu rökin og við vitum hvernig þróunin hefur verið. Menn töldu að hér yrði allt of frjálst aðgengi og að þetta mundi hafa afskaplega slæm áhrif á ungmenni landsins o.s.frv., en ég tel að við getum öll verið sammála um, þegar við horfum í baksýnisspegilinn, að það sé eitthvað sem hefur ekki ræst.

ÁTVR er metnaðarfullt fyrirtæki og hefur staðið sig ágætlega í því sem þeir eru að gera. Hjá ÁTVR starfar mikið af hæfu fólki, gott starfsfólk sem sinnir störfum sínum af mikilli ábyrgð og glaðlyndi og hefur mikinn áhuga á því að sinna verkefninu vel. Það er rétt að taka fram. Þetta snýr ekki að því að ekki sé gert nógu vel af hálfu ÁTVR.

Mikið hefur verið rætt um forvarnir og lýðheilsusjónarmið. Það er rétt að benda á að þegar maður skoðar ársskýrslur og markmiðin sem hafa birst okkur af hálfu ÁTVR í gegnum tíðina er hægt að lesa sig í gegnum það þannig að forvarnahlutverk ÁTVR hafi m.a. falist í því, alla vega hefur verið mikil áhersla á það, að gæta þess að aldurstakmark varðandi áfengisinnkaup sé haldið, þ.e. að fylgja eftir þeim lagaákvæðum sem kveða á um lágmarksaldur þeirra sem kaupa áfengi. Jafnframt kemur fram, bæði í ársskýrslum fyrirtækisins og eins þegar maður kíkir í verslanirnar, að menn reyna að stuðla að bættri vínmenningu og miðla upplýsingum um það t.d. hvaða vín er gott með vissri tegund af mat, sem er auðvitað eitthvað sem þeir sem koma í verslanirnar eru að hugsa um. Þarna er veitt ágæt þjónusta.

Það er ekkert sem segir að einkaaðilar sem tækju að sér þetta verkefni gætu ekki gert slíkt hið sama. Þvert á móti. Við sjáum það einfaldlega í öllum öðrum verslunarrekstri á Íslandi að menn leggja metnað í þetta.

Varðandi aldurstakmarkið hefur einkaaðilum hingað til verið treyst fyrir því að selja tóbak og ýmsar aðrar vörur sem bundnar eru skilyrðum. Þessi rök eru öll ágætlega rakin í greinargerðinni. Það kemur meðal annars fram að það eru ekki eingöngu stífar reglur um hverjir megi kaupa tóbak heldur er einkaaðilum einnig treyst fyrir því að fylgja eftir reglum laga varðandi afhendingu eiturefna, skotvopna og skotfæra, þar erum við því einnig með vörur sem ekki er ætlast til þess að hver sem er hafi aðgang að.

Maður hefur ekki orðið var við sérstaklega mikla gagnrýni í umræðunni á að miklir misbrestir hafi verið á þessu. Það eru reglulega fréttir í blöðum af könnunum á því hvort börn eða einstaklingar undir 18 ára aldri nái að kaupa tóbak. Það er aðhald með þeim sem eru með þessi leyfi. Það er rétt að taka fram að verði þetta frumvarp að lögum og aðilar fá heimild til þess að selja er það auðvitað bundið ströngum skilyrðum. Það verður haft eftirlit með því og við hljótum að trúa á það að við getum sinnt slíku eftirliti. Ég get að minnsta kosti trúað því og geri það.

Ég tel litla ástæðu til að fara mikið yfir fjárhagshliðina en menn þekkja að það eru háir skattar og gjöld á áfengi. Það er alveg ljóst að þeim aðilum sem eru í verslunarrekstri er treyst fyrir því að innheimta og skila virðisaukaskatti og þeim yrði að sama skapi gert skylt að standa skil á þessum gjöldum. Ég trúi því að einkarekstur sé hagkvæmari en opinber rekstur. Ég trúi því að það gildi jafnframt um þetta á því sviði.

Síðan hefur heyrst í umræðunni að verði þetta frumvarp að veruleika muni áfengisvandinn í þjóðfélaginu aukast vegna þess að aðgangur að áfengi verði auðveldari. Þetta eru háværar raddir í þingsalnum. Nú þekkjum við það, ef við horfum yfir söguna, að útsölustöðum ÁTVR hefur fjölgað mjög, bara frá því að ég var barn. Er þá ekki aukið aðgengi að vörunni? Hvers vegna hefur það fólk sem hér hefur talað hæst á móti þessu frumvarpi ekki verið með slíkar athugasemdir þegar ÁTVR hefur opnað nýja sölustaði? Af hverju hafa þær raddir ekki heyrst ef menn hafa haft slíkar áhyggjur af þessu? Af hverju hafa þær raddir ekki heyrst? Er sannleikurinn ekki einfaldlega sá að menn vilja halda einhverju eftir hjá ríkinu varðandi sölu á einhverri vöru? Er það ekki hugmyndafræðin sem við erum að takast á við hér í dag? Eigum við ekki að horfast í augu við það? Ég hef að minnsta kosti ekki orðið vör við þetta, þvert á móti.

Þegar ég var að komast á áfengiskaupaaldur voru ekki útsölustaðir í mínum heimabæ og heimasveit. Það var að kröfu heimamanna sem sú þjónusta kom til. Ef við kíkjum á helsta nágrannabæ minn, ég bý á Hvolsvelli, opnaði útibú eða verslun á Hellu og var hún fyrst um sinn inni í Kjarvali sem var matvöruverslunin í bænum. Samlegðaráhrif voru af rekstrinum vegna þess að til kom aukið húsnæði þar sem nú er verslunin, aðeins betur aðgreind en engu að síður í sama kjarna og matvöruverslunin. Það var ÁTVR sem tók þá ákvörðun. Við þekkjum líka hvernig áfengisverslunin eða útsölustaðurinn í Hveragerði kom til. Hann var á N1 sem er bensínstöð. Íbúar, margir hverjir, gerðu athugasemdir við það og vildu frekar hafa áfengisverslunina í kjarna þar sem fleiri verslanir eru. En ég man ekki eftir því að þeir menn sem hér hafa hæst talað hafi haft áhyggjur af því í umræðunni að aðgengi að áfengi yrði allt of mikið í Hveragerði. Þetta snerist meira um staðsetninguna, á hvorum staðnum þessu væri betur fyrir komið.

Það er líka athyglisvert að skoða söguna. Við getum skoðað til dæmis Ólafsvík þar sem vínbúðin var rekin í versluninni Þóru. Það var gert í mörg ár. Ég hafði ekki tök því að kynna mér hvort það væri enn staðan, en a.m.k. var það svo til mjög langs tíma. Í versluninni Þóru var jafnframt selt garn og barnaföt. Ég man ekki eftir neinum sérstökum athugasemdum frá þeim sem hér hafa hæst talað vegna þessa útibús eða þessa sölustaðar. Ég átta mig ekki alveg á umræðunni.

Síðan er ákveðinn tvískinnungur í því hvernig menn tala um forvarnir. Það kom einn hv. þingmaður í ræðustól áðan og taldi það algjöra óhæfu að taka barn með sér í vínbúð. Er það þannig? Er það óhæfa? Er maður vanhæft foreldri ef maður hefur gerst sekur um slíkt? Hversu margir hérna inni hafa gert það? Er það ekki akkúrat þannig að við eigum að ala börnin okkar upp í því að skilja hvernig eigi að umgangast áfengi? Áfengi er til.

Ég er alin upp í þannig umhverfi að maður þurfti að stelast, það var unglingadrykkja í heimabæ mínum þegar ég var að alast upp. Það var ekki skortur á aðgengi að áfengi. Það að ekki var sölustaður ÁTVR í mínum heimabæ var engin fyrirstaða. Ekki nokkur fyrirstaða. Í kjölfarið kom mikil innrás á þennan markað frá landasölufólki. Það var ekki sérstaklega skemmtileg né góð þróun. Það var enginn búinn að kenna okkur sem þá vorum að alast upp hvernig við ættum að umgangast áfengi. Það mátti ekki tala um þetta. Þetta var ekki til, en engu að síður sá maður það t.d. í réttunum sem barn að þetta var eitthvað sem var mjög skemmtilegt og spennandi. Allt sem er bannað, við vitum hvernig það er. Það er svolítið spennandi að kíkja á hvernig það virkar. Þannig að ég held að við þurfum aðeins að taka okkur tak með þessa menningu, vínmenningu, hvernig við kennum börnunum okkar og þeim sem eru að alast upp að umgangast áfengi.

Við þekkjum það viðhorf að mikið sé drukkið á Íslandi. Við höfum heyrt það. Ýmsar kannanir styðja það. Um daginn hélt frægur kvikmyndaleikari í viðtali í frægum spjallþætti í Bandaríkjunum því fram að Íslendingar færu, upp til hópa, illa með áfengi. Ég held hann hafi örugglega sagt að við værum mjög mörg alkóhólistar. Það er ímyndin þrátt fyrir að við séum með ÁTVR. Erum við ekki að tala um þetta á vitlausum forsendum? Er það ekki einfaldlega punkturinn? Ég held það.

Ég held að við þurfum að leggja meiri áherslu á fræðslu. Það er hægt og það er meira að segja eitt af því sem lögð er áhersla á hér, á hvað áfengi sé, hvernig áhrif það hefur á mann, hvernig við ætlum að kenna börnunum okkar að nálgast það. Ég hef ekki heyrt neinn í þessari umræðu halda því fram að við ætlum alfarið að banna áfengi á Íslandi. Ég hef ekki heyrt það, en mann grunar að það sé innst inni eina lausnin. Við vitum alveg hvernig það mundi fara; landasalarnir mundu einfaldlega ná öllum markaðnum.

Við sem höfum heimsótt Evrópu og önnur lönd þekkjum sælkeraverslanir þar sem hægt er að kaupa ost, kjöt og viðeigandi vín með. Þetta er svona í mörgum löndum. Í mörgum löndum sem við berum okkur saman við. Í mörgum löndum sem standa okkur framar hvað varðar minni unglingadrykkju og færri vandamál tengd áfengisneyslu. Er þetta ekki eitthvað sem við eigum að ræða?

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta mál sé komið fram. Ég fagna því að við séum að ræða aukið frelsi. Ég fagna því að við ætlum að ræða mikið um forvarnir og lýðheilsu og ég fagna því að við séum komin á þann stað að málið hefur verið lagt fram. Ég hlakka til að takast á við umræðuna og ég hlakka til að takast á við nefndastarfið sem fram undan er. Ég vona svo sannarlega, herra forseti, að þetta mál komist það langt að það fari í atkvæðagreiðslu í þingsalnum.