144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[13:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áhuga á að ræða við hv. þingmann um skilgreiningu hans eða Sjálfstæðisflokksins á frelsishugtakinu. Ég velti fyrir mér þegar maður heyrir þessa umfjöllun um frelsi í samhengi við þetta mál frá talsmönnum Sjálfstæðisflokksins, hægri mönnum, frjálshyggjumönnum — er það þá þannig að frelsið a.m.k. í þessu tilviki snúist í grunninn um að verslunin megi græða á því að selja brennivín? Er það sérstakt frelsismál? Frelsið snýr sem sagt ekki sérstaklega að því að einstaklingurinn geti lifað mannsæmandi lífi með reisn? Frelsið snýr ekki að því að einstaklingurinn sé í reynd aldrei frjálsari en þegar tekst að byggja upp gott, réttlátt og heilbrigt samfélag? Til þess þurfum við reglur. Til þess þurfum við skipulag. Þetta er ekki frelsið sem er Sjálfstæðisflokknum efst í huga, heldur hitt að verslunin megi græða á brennivíni.

Ég spyr hv. þingmann: Er þessi notkun frelsishugtaksins ekki gengisfelling á því? Mannréttindi og frelsi eru annað en þetta. Ég vil ganga svo langt að segja að mér finnst þetta vera misnotkun á frelsishugtakinu, að nota það jafn blygðunarlaust sem einhverja algilda röksemd í sambandi við það að ekki megi hafa skipulag á því hvernig áfengis- og vímuvarnamálum er háttað í landinu.

Hv. þingmaður ónotaðist út í það að þeir sem hafa verið talsmenn aðhaldssamrar stefnu í þessu skyldu ekki hafa verið á móti því að ÁTVR opnaði útibú og aðlagaði þjónustu sína að kröfum og þörfum nútímans. Ég hef stutt það eindregið og talið það skynsamlegt hjá ÁTVR vegna þess að ég vil standa vörð um skipulagið. Þá verður það auðvitað að koma til móts við eðlilegar þarfir í þessum efnum.

Ég veit að sjálfstæðismenn hefðu viljað að ÁTVR væri eins og fornaldarleg einokunarstofnun með lélega þjónustu að auðvelt væri að slá hana af. Það sem þvælist auðvitað fyrir íhaldinu í málinu er að almenn ánægja er með (Forseti hringir.) þjónustu ÁTVR. Og ÁTVR (Forseti hringir.) skorar hærra á ánægjuvoginni (Forseti hringir.) sem er mæld á hverju ári en verslunin sem hér (Forseti hringir.) er verið að ganga erinda fyrir.