144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[13:57]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. ræðumanni fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að ég er ein af þeim sem hafa tekið barnið sitt með í áfengisbúð eins og hún. Ég vissi það ekki fyrr en núna, þegar ég stóð hér til hliðar í þessari umræðu, að það væri einhver sérstök skömm að því. Ég vil fá að skila henni til baka. Það eru ekki allir sem eiga í erfiðleikum með áfengi, raunar fæstir. Við verðum að hafa það í huga í allri þessari umræðu og gæta ákveðins meðalhófs þegar við erum að ræða þessi mál.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvað hún sjái fyrir sér varðandi aðbúnað vínsölu í breyttu rekstrarformi. Er hv. þingmaður sammála mér um að þörf sé á skýrum reglum um aðgengi og sýnileika vörunnar í þeim búðum sem taka mundu við ef ríkið héldi ekki áfram einokun sinni?