144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[13:58]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir andsvarið og játninguna. Við erum þá jafn sekar, ég og hv. þingmaður, um þetta athæfi sem virðist vera alveg hrikalegt, alla vega í huga sumra.

Engu að síður er þetta góð spurning varðandi aðbúnaðinn. Auðvitað þurfum við að vera með skýrar reglur um hvernig við ætlum að hafa hlutina. Það er mjög misjafnt hvernig hlutunum er fyrir komið hjá þeim þjóðum sem eru með áfengissöluna með þessum hætti.

Ég var í Arkhangelsk í Rússlandi fyrr á þessu ári. Þar er áfengi inni í búðunum í hillum við hliðina á matvöru, ýmist í ákveðinni deild eða þá allt saman en ekki blandað saman við aðrar vörur. Á ákveðnum tíma er lokað fyrir þessa deild búðarinnar með slagbrandi eða rimlum vegna þess að ekki er heimilt að selja áfengi eftir klukkan — ég man ekki alveg hvað reglurnar segja um tímann, en þannig er það gert þar.

Okkur er frjálst að setja þær reglur sem við viljum hafa. Við þurfum að fara vel yfir það í nefndinni hvernig við gerum þetta svo við höfum fyrirkomulagið sem skýrast og einfaldast, en þó þannig að við gætum okkar að því að hafa þau takmörk sem við ætlum okkur að hafa, þ.e. að aldurstakmarkið sé algjörlega klárt og ég mundi telja að salan yrði á afmörkuðum stöðum.