144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[14:00]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið. Við erum þá alveg sammála, hv. þingmaður og ég. Við eigum það líka sammerkt að vera meðflutningsmenn á þessu máli. Ég verð að segja að í mínum huga er það mjög skýrt að sé þetta fært í annað form verða að vera mjög skýrar reglur um hvernig aðgengi er háttað, hvernig útstillingu í búðum er háttað. Það er nokkuð sem þarf að ræða og finna út úr.

Mergur málsins er sá að mér finnst fjarstæðukennt að það þurfi endilega að vera ríkið sem selji þessa vöru frekar en einhverja aðra. Ég vil treysta öðrum til þess og ég tel að nú þegar sé aðgengið mjög gott hjá ÁTVR. Ég er ekki viss um að það breytist mikið eða að salan aukist mikið við þessa breytingu.