144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[14:17]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hlustuðum hér á ræðu hv. þm. Bjarkeyjar Gunnarsdóttur. Hún velti upp mörgum mjög mikilvægum þáttum sem snúa að þessu máli. Fyrsta spurning hv. þingmanns var: Er knýjandi þörf á því að þetta mál komi til umræðu á þessum tímapunkti inn í þingið? Af því ég veit að hv. þingmaður situr í hv. fjárlaganefnd, og sinnir því starfi mjög vel, ætla ég að svara því játandi. Þetta er knýjandi. Hér er hellings fjárbinding. Ef við tökum bara nettóeiginfjárstöðu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins erum við að tala um 4,5 milljarða.

En ég get jafnframt tekið undir þá skoðun hv. þingmanns að þetta er auðvitað lýðheilsumál, risastórt lýðheilsumál. Mér finnst alltaf tilefni til þess að ræða lýðheilsumál. Við tölum mikið um heilbrigðismál og þetta er nátengt. Ég tala nú ekki um þegar þetta snýr að unga fólkinu okkar.

Það er svo margt sem tengist þessu máli sem ég tel knýjandi og fulla þörf á að taka til umræðu. Það er vel.

Fyrsta spurningin mín lýtur að því hvort hv. þingmanni finnist ekki ástæða til, til að byrja með, að taka þetta mál upp út frá því hvernig við nýtum almannafé.

Ég ætla að koma að lýðheilsumálunum í seinna andsvari.