144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[14:19]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg rætt við hv. þingmann út frá nýtingu á almannafé. Hvað skilar ÁTVR okkur í ríkiskassann? Mundum við vilja vera án þess, ef við horfum á það að við þurfum að borga fyrir það að reka ÁTVR eins og þingmaðurinn rakti? Hverju er hann tilbúinn til þess að eyða í lýðheilsumálin? Mundi hann vilja setja þá fjármuni sem mundu sparast yfir í lýðheilsumálin?

Ég held að það mundi ekkert sparast. Ég held að þeir fjármunir sem fara í að halda rekstri ÁTVR eins og hann er, fyrir utan það sem ég las upp áðan og má rökstyðja sem forvörn, mundu ekki sparast heldur koma strax í bakið á okkur og fara beint út í aukinn kostnað, meðal annars í heilbrigðiskerfinu eins og hv. þingmaður kom inn á.

Þannig að þegar frjálshyggjufólk talar um, og ég leyfi mér að tala þannig, að það kosti okkur svo mikið að reka ÁTVR, þá mótmæli ég því á þeirri forsendu að ég held að það sé dýrara fyrir okkur að reka hana ekki. Ég held að kostnaðurinn mundi klárlega fara út í samfélagið með öðrum hætti og við sætum uppi með hann sem ríki.