144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[14:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Ég er sammála hv. þingmanni að við eigum að halda áfram á þeirri braut sem við erum. En sú braut hefur verið að hafa meira aðgengi meðfram meiri forvörnum, betri meðferðarúrræðum og því um líku.

Frumvarpið sem hér um ræðir dregur ekki úr því heldur þvert á móti er imprað á því að auka þurfi meira við forvarnir og þess háttar. Allir eru sammála um það, um það er enginn ágreiningur.

Hins vegar finnst mér skrítið að það kemur alltaf upp sama umræðan þegar eitthvað svona kemur til tals, hvort sem það er lögleiðing bjórs eða að setja bjór og léttvín í búðir eða sterkt áfengi. Umræðan er alltaf sú sama, fólk varar við þessu en samt er það alltaf sátt við hlutina eins og þeir eru og vill aldrei hverfa aftur í tímann, vill aldrei fara aftur á bak í þessari þróun. Þróunin er klárlega sú að hafa fleiri áfengisbúðir, meira aðgengi, meðfram þeim úrræðum sem raunverulega virka til þess að stjórna unglingadrykkju sem eru forvarnir, fræðsla og meðferðarúrræði.

Ég velti fyrir mér sjónarmiðum hv. þingmanns: Hvers vegna viljum við aldrei (Forseti hringir.) fara aftur til baka í þessari þróun?