144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[14:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Engu að síður er þetta nú í frumvarpinu og ef flutningsmenn, eins og 1. flutningsmaður, trúa því virkilega að þessar breytingar muni ekki leiða til aukinnar neyslu þá hljóta þeir samt að telja að það sé ástæða til að efla forvarnastarf í þessum efnum. Kannski erum við bara sammála um það öll, þingmenn, að það væri eitt og sér góð breyting að hækka hlutdeild lýðheilsusjóðs í áfengisgjaldi. Vonandi verður það það eina sem eftir stendur þegar afgreiðslu þessa máls er lokið, að menn sameinist um að efla það starf.

Varðandi umræður hér um aukið aðgengi gegnum það að ÁTVR hefur fjölgað útsölustöðum þá bið ég menn aðeins að tala varlega í þeim efnum. Fjölgunin sem menn tala hér um er fyrst og fremst vegna þess að ÁTVR hefur komið til móts við óskir íbúa í minni byggðarlögum um að fá útsölur þar. Það er jafnréttismál. Það dregur úr kostnaði landsbyggðarfólks við að afla sér þessarar vöru borið saman við aðra landsmenn.

Ekki hefur orðið mikil breyting á aðgengi eða fjölgun útsölustaða hér á höfuðborgarsvæðinu. Fjölgunin er fyrst og fremst fólgin í því að ÁTVR hefur með mjög praktískum hætti, (Forseti hringir.) í samstarfi við aðra aðila á svæðunum, (Forseti hringir.) komið upp litlum afgreiðslum (Forseti hringir.) til að mæta þessum kröfum. En það er á forsendum ÁTVR. Það er innan þessa kerfis. (Forseti hringir.) Það er með ströngu eftirliti með (Forseti hringir.) aldurstakmarki og öðru slíku.