144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[15:02]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir með hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur. Það er veitt ráðgjöf í ÁTVR, það er ekki auglýsingamennska. Ef þú óskar eftir því þá færðu ráðgjöf, en ég hef ekki, að minnsta kosti ekki í þau skipti sem ég hef rekið nefið þar inn, verið neitt sérstaklega áreitt af því að starfsmenn séu að ota að mér einhverju slíku, heldur hafa þeir boðið mér ráðgjöf ef ég hef leitað eftir því.

Þingmaðurinn fullyrti í ræðu sinni að hann teldi að með því að heimila þetta í verslanir mundi að öllum líkindum draga úr bruggi og úr ólöglegri starfsemi. Og mig langar að spyrja hann: Hvað hefur hann fyrir sér í því? Er þetta hans eigið hyggjuvit sem segir þetta, eða hefur hann eitthvað annað fyrir sér í því?

Hann talaði líka um að það væri kannski heppilegra að ég nýtti tíma minn betur en að keyra tvisvar sinnum 15 kílómetra til að sækja mér vín. Ég er nokkuð viss um að mjög margir hér, og kannski hann líka, eyða mun meiri tíma á hverjum degi, sem er gott og blessað, í að koma sér í vinnuna og til baka.