144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[15:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi nokkur atriði. Það er spurning hverjum þeirra ég á að vera sammála eða ekki sammála. Ég er a.m.k. sammála því að ég tel að það hvernig ungum börnum og ungu fólki reiðir af í þessum efnum sé langmikilvægast, gerandi þó ekki lítið úr því vandamáli sem áfengisvandi og ofneysla fólks á miðjum aldri og eldri árum er líka. Þess vegna eigum við að hafa það sérstaklega í huga og það á í raun að njóta forgangs í þessum efnum, enda sagði 1. flutningsmaður málsins hér í gær að ef það væri ekki hafið yfir allan vafa að þetta mundi ekki hafa nein áhrif til aukningar á áfengisneyslu ungs fólks þá væri hann fallinn frá stuðningi við málið. Kannski er bara viðfangsefnið að reyna að koma til botns í því. Er tekin áhætta með þessu frumvarpi hvað það varðar? Ég tel svo vera, mikla áhættu, svo vægt sé til orða tekið. Það er ólíku saman að jafna, sérbúðum með ströngu eftirliti með að aldursmörk séu virt og menn framvísi persónuskilríkjum og mörg hundruð (Forseti hringir.) verslunarstöðum þar sem ungmenni afgreiða jafnaldra sína og bjórinn er í einni hillu og (Forseti hringir.) sælgæti í þeirri næstu. Það sjá það allir í hendi sér.