144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[15:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að ÁTVR hafi samviskusamlega fylgt lögunum og þetta rúmist allt innan laganna, samanber a-lið 2. gr., að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks, sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð. Það er ekki markmið í starfsemi ÁTVR að reyna að koma bara í veg fyrir að menn neyti þessarar vöru, heldur að hafa skýra umgjörð um það og reyna að halda eins vel utan um þennan málaflokk og mögulegt er.

ÁTVR hefur verið það vel ljóst að þeir eru auðvitað að mæta upp að vissu marki eðlilegum kröfum fólks um vöruúrval, bætta þjónustu o.s.frv. Þeir hafa gert það en það hefur verið gert innan þessa ramma mjög meðvitað og markvisst. Á seinni árum hefur þetta fyrst og fremst snúist um það, eins og ég sagði áður, að auka jafnræði landsmanna í þessum efnum með því að fjölga afgreiðslustöðum úti um landið hjá þeim hluta landsmanna sem ekki hafði þá áður. Og það er bara ekkert að því, ég styð það og hef alltaf gert.

Ég hef, herra forseti, líka gert það af öðrum ástæðum. Mér hefur verið það lengi ljóst að hægri menn, þeir sem vilja þetta feigt, eiga enga ósk heitari en að ÁTVR standi sig illa, að (Forseti hringir.) ÁTVR verði óvinsælt, það sé auðvelt að hrópa það niður (Forseti hringir.) sem eitthvert ömurlegt einokunarbatterí. (Forseti hringir.) Það hefur ekki tekist. ÁTVR hefur tekist að þræða þessa línu þannig að ánægja er með (Forseti hringir.) þjónustu fyrirtækisins og það skorar hærra í ánægjuvoginni ár eftir ár (Forseti hringir.) en blessuð stórverslunin sem flutningsmenn vilja að fái þetta í hendur.