144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[15:31]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þvert á móti fagna þeim árangri sem vínbúðirnar eða ÁTVR hefur náð í þessu, enda miðar það allt að því að nálgast það fyrirkomulag sem ég legg til í mínu frumvarpi, það er nú bara þannig. Það er því alltaf að verða styttra á milli. Þess vegna er bara spurning hvenær þetta er orðið nákvæmlega eins. Þeir reka meira að segja verslanirnar inni í barnafataverslun, þannig að þetta er bara nákvæmlega eins og fyrirkomulagið er í dag, það er ekki verið að breyta neinu.

Þú gleymdir að lesa seinni liðinn, b-liðinn, „að takmarka og stýra aðgengi“, það er líka eitt af markmiðunum. Mig langar líka að spyrja þig af því að þú talaðir mikið um flutningskostnaðinn, hver á þá að borga hann? Ef ÁTVR er að borga hann, eins og ég skildi þig rétt í dag, eru þá mínir skattpeningar að fara í það að borga flutningskostnað á áfengi, ég sem drekk ekki áfengi? Ég mundi nú frekar vilja að þeir færu í umferðaröryggi. Og hvaðan á að taka peningana til að auka um þessar 500 milljónir í lýðheilsusjóð, eins og við leggjum til? (Forseti hringir.) Úr umferðaröryggi, úr heilbrigðiskerfinu, eða hvaðan viltu að það sé tekið? (Gripið fram í.)

(Forseti (ÞorS): Forseti áminnir hv. þingmann að um að ávarpa þingmenn sem háttvirta.)