144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[15:39]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir skelegga ræðu. Þar sem ég er meðflutningsmaður á þessu frumvarpi tek ég því mjög alvarlega þegar hann talar um ábyrgðarleysi. Ég tel að við reynum að vanda okkur mjög og að það skipti miklu máli að við vöndum okkur í þessari umræðu og umfjöllun og við að leggja fram slíkt frumvarp.

Hv. þingmaður kom inn á starfsemi ÁTVR og að hún sæki stoð fyrir sinni verslun í lög til að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð. Það er grundvallarmunur á skoðunum okkar í því efni. Ég trúi að verslunin geti komið með okkur í þá vegferð, þ.e. að með breyttri umgjörð geti verslunin sinnt þessu hlutverki með samfélagslega ábyrgð og lýðheilsumarkmið í huga.

Hv. þingmaður hafði áhyggjur af því að hér yrði ekki nægt vöruúrval. Er ekki viðskiptatækifæri fólgið í því fyrir einstaklinga að vera með sérverslanir?