144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[15:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka fram, hvað sem ég kann að hafa sagt áður, að ég efast ekki eitt augnablik um að hv. þm. Willum Þór Þórsson vill vel í þessum efnum, jafn mikið og hann hefur komið að æskulýðs-, íþrótta- og menntamálum. En okkur getur samt greint á um þessi efni og ekkert að því. Ég ætla þá líka að vera hreinskilinn og segja: Ég hef séð hv. þingmann í betri félagsskap en hann er í með hópi flutningsmanna frumvarpsins, þ.e. í þessum efnislega og yfirfærða skilningi. Mér finnst ekki skynsamlegt að fara inn á þessa braut.

Mun vöruúrvalið ekki verða í boði í einhverjum sérverslunum? Jú, það er líklegt að það yrði á höfuðborgarsvæðinu, trúlega spryttu þar upp stórar búðir með miklu vöruúrvali. Það færi sjálfsagt eftir verðflokkum, ég geri ráð fyrir að Bónus yrði frekar með ódýrt kassavín og hefði það við hliðina á kjötinu, svo kæmi kannski Hagkaup með aðeins meira úrval af dýrari tegundum og ef til vill ein flott „exklúsíf“ lúxusvínbúð (Forseti hringir.) á höfuðborgarsvæðinu sem gerði út á þann markað. En þær yrðu fáar úti um land, hv. þingmaður, þær yrðu fáar úti um land.