144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[15:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér ræða menn um að setja áfengi í búðir. Mér þykir þetta með afbrigðum skemmtileg umræða vegna þess að hér er tekist á um ansi margt í einu.

Ég tek eftir ákveðnu mynstri í þessari umræðu sem er það að menn vilja tala miklu meira um heildarmagn af seldu áfengi, af neyttu áfengi en minna um unglingadrykkju, neikvæðar afleiðingar óhóflegrar eða hóflegrar áfengisneyslu en sérstaklega óhóflegrar áfengisneyslu, og vilja miklu frekar halda sig við einfaldar breytur sem sýna fram á að áfengisneysla hefur aukist mjög mikið, sem er satt. Áfengisneysla hefur aukist mjög mikið síðan bjórinn var lögleiddur, síðan vínveitingaleyfi urðu tíðari, síðan áfengisverslunum fjölgaði hjá ríkinu. Á sama tíma hefur ýmislegt gott gerst. Áfengismenning á Íslandi hefur batnað til muna. Ég heyri engan mótmæla því. Ég hef ekki enn heyrt neinn í þessum sal segja að við ættum að fara aftur til baka til ársins 1987 eða 1988. Ég heyri engan segja að hlutirnir hafi verið betri þá.

Ég heyrði hv. þm. Pál Val Björnsson, vin minn, tala hérna fyrr í dag um að fyrr á tímum hefði allt verið vitlaust niðri í bæ út af fylliríi. Menn þurfa ekki að vera eldri en ég til að muna eftir því. Mín tilgáta er sú að það hafi fyrst og fremst verið vegna þess að lokunartíminn var akkúrat klukkan þrjú að nóttu hjá öllum, sem þýddi að allir fóru ölvaðir út á götu á sama tíma og vildu halda áfram að skemmta sér. Auðvitað var haftastefnan enn sterkari þá en hún er nú með tilheyrandi afleiðingum, sem er svo oft dæmið.

Haftastefnur eru oft vel meintar, en það er ekki hugurinn sem gildir þegar kemur að lagasetningu. Það skiptir máli hvaða raunveruleg áhrif ákvarðanir okkar hafa, óháð því hvað við erum að reyna að gera, sama hversu vænt okkur þykir um börnin okkar, það gefur okkur ekki einhverja ókeypis dómgreind á það hvaða afleiðingar gjörðir okkar hafa. Þess vegna þurfum við að hugsa lengra en aðeins um hvað við ætlum að gera. Við þurfum að skoða hverjar afleiðingarnar hafa verið.

Við vitum að áfengisneysla hefur aukist í kjölfar aukinnar frelsisvæðingar á þessu sviði. Við gerum fastlega ráð fyrir því, þar á meðal sá sem hér stendur, einnig kemur það fram í greinargerð með frumvarpinu og vissulega hefur fólk talað hér um það, að áfengisneysla muni aukast í kjölfar þess að þetta frumvarp verði að lögum, a.m.k. tímabundið. Það er svo gott sem óumdeilt og ætti að vera það vegna þess að það er staðreynd.

Eftir stendur umræðan um neikvæðar afleiðingar óhóflegrar drykkju, umræðan um eðli drykkjunnar, umræðan um neyslumynstrið, hversu mikið fólk drekkur í einu, undir hvaða kringumstæðum, hvernig það hagar sér þegar það er ölvað, hvernig það lætur við annað ölvað fólk, hvernig það tekur öðru fólki þegar það er ölvað. Allt þetta hefur mjög veigamikil áhrif.

Áður en lengra er haldið langar mig að útskýra eitt um áfengi, sem ég hef sagt margsinnis í pontu: Áfengi er dóp. Áfengi er ekkert minna dóp en annað dóp sem er á markaðnum. Ég heyri engan mótmæla því vegna þess að það er dagsatt. Þetta er staðreynd. Áfengi veldur þunglyndi, dómgreindarbresti, minnistapi, heilaskaða, heilsutjóni, geðveiki, heimsku, fíkn og dauða (Gripið fram í.) og er þá ekki allt upp talið. Höfum það því alveg á hreinu að við erum ekki að tala um neina venjulega neysluvöru. Ég hef ekki heyrt neinn segja hérna: Við eigum að selja áfengi í búðum vegna þess að það er alveg eins og kakó og pylsur. Ég hef ekki heyrt neinn segja þetta og mundi ekki taka mikið mark á viðkomandi ef hann gerði það.

Áfengi veldur fráhvarfseinkennum og þolmyndun og er þar af leiðandi fíknivaldandi. Þetta er fíkniefni. Eini munurinn á því og öðru er — ja, munurinn er tvíþættur: Annars vegar er áfengi löglegt, það eru reglur um það en það er löglegt, og hins vegar á það sér ofboðslega langa og ríka sögu í menningu okkar, hvort sem fólki líkar það betur eða verr. Þetta er helsti eðlismunurinn á áfengi og öðrum fíkniefnum. Að öðru leyti er áfengi sem efni ekki neitt frábrugðið öðrum efnum. Það er hægt að drekka kannabisefni, menn gera það. Það er hægt að drekka ofskynjunarsveppi. Það breytir þeim efnum ekki í neitt minna dóp. Það eru aðrir hlutir sem gera það.

Mig langar að fjalla um hvað vakir fyrir mér þegar kemur að þessari umræðu, þ.e. hvaða áhrif ég vona og tel að verði af þessu frumvarpi. Ég styð þetta frumvarp að svo stöddu, ekki vegna ástar minnar á verslunarfrelsi og ekki vegna frelsis einstaklingsins. Þótt ég elski frelsi einstaklingsins þá er það ekki forsenda fyrir því að ég styð frumvarpið akkúrat á þessum tímapunkti. Ég gef ekkert fyrir rök um þjónustu og vöruúrval ef ég á að segja eins og er, mér er kannski kært um þessa hluti sem neytanda en sem þingmanni er mér satt best að segja nákvæmlega sama. Ég sé ekki að það sé hlutverk þingmanna að tryggja vöruúrval eða gæði þjónustu. Mér finnst það eiga heima á hinum frjálsa markaði og hvergi annars staðar nema þegar kemur að því sem ríkið hefur ákveðið að hafa einkaleyfi á. Ef þjónustan versnar eitthvað er mér alveg sama. Ef vöruúrvalið versnar eitthvað verður bara að hafa það. Mér finnst það ekkert hræðilegt, ég þarf ekki 120 bjórtegundir. En það er ég, ég tala ekki fyrir aðra.

Áhyggjur af verði — mér finnst dálítið skrýtið þegar andstæðingar þessa frumvarps kvarta mikið undan því að áfengisverð muni hækka þar sem það er einmitt einn af þeim þáttum sem er talinn draga helst úr áfengisneyslu. Þá virðast menn vera að skammast meira yfir því að dóppeningarnir fari ekki til ríkisins heldur til einhvers annars. Ég hef reyndar smááhyggjur af hækkandi verði en bara út frá þeim forsendum að ég tel of hátt verð búa til vonda hvata, svo sem þann að fólk fari að brugga landa eða eitthvað því um líkt en vonandi bara bjór.

Það sem vakir fyrir mér í þessari umræðu er að breyta áfengismenningunni til hins betra. Íslendingar birgja sig upp, drekka mikið í einu og haga sér eins og fífl þegar þeir eru drukknir. Ég segi hlutina umbúðalaust, fyrirgefið, við erum að tala um áfengi og því leyfi ég mér að tala svona. Eftir að hafa verið erlendis, bæði búið þar og farið oft þangað, þá skammast ég mín fyrir íslenska áfengismenningu. Þegar ég fer inn í markaði í Frakklandi og sé rauðvín í hillum þá hugsa ég með mér: Æ, já, ég er fullorðinn, alveg rétt. Mér á að vera treystandi til að sjá áfengi án þess að ég fríki út, detti í það klukkan tvö á þriðjudegi. Það er bara ætlast til þess, ótrúlegt en satt.

Hérna á Íslandi erum við með svo brenglað viðhorf að það má kaupa kassa af brennivíni klukkan tvö á þriðjudegi en það má ekki kaupa sér bjór klukkan níu á föstudagskvöldi nema á barnum. Þetta finnst mér skrýtið. Mér finnst svo skrýtin sú hugmynd okkar Íslendinga að við séum einhvern veginn að hjálpa alkóhólistum að eiga við sín vandamál og fyrirbyggja alkóhólisma eða vandamál í kjölfar áfengisneyslu með því að stjórna opnunartíma og fjölda sölustaða. Ég trúi ekki að þetta sé það sem hafi úrslitaáhrif á þau vandamál sem áfengisneysla veldur.

Aðeins meira um áfengisvandamál: Áfengisneysla getur valdið alls konar vandamálum. Fyrir utan þau sem ég nefndi hérna áður eru vandamál sem eiga það sameiginlegt með öðru dópi að valda krabbameini, skorpulifur, vinnutapi o.fl.

Hér reynir á gildismat. Ef hægt er draga úr fylliríismenningu, er það ekki skömminni skárra en að hafa meiri fylliríismenningu og kannski færri tilfelli af skorpulifur? Það er gildisspurning sem ég ætla ekki að svara hér og nú vegna þess að það er nokkuð sem við þurfum að ræða burt séð frá einhverjum tölum. Það er nokkuð sem við þurfum að ákveða. Ég segi fyrir sjálfan mig: Ég vil miklu frekar fá skorpulifur eða krabbamein á fullorðinsaldri en vera stunginn í síðuna á þrítugsaldri, eins og áfengi getur valdið vegna þess að áfengisneysla veldur geðveiki, heimsku og öllum þessum hræðilegu hlutum.

Eitt þykir mér áhugavert við að heyra andstæðinga þessa frumvarps segja hérna og það er að þeir vilja aldrei snúa til baka. Bjórbannið var afnumið, sælla minninga, og neysla hefur aukist gríðarlega síðan þá, en enginn vill banna bjórinn úr þessu. Þó nefna menn það hér og þar að kannski séu vindar að snúast og menn vilji banna meira, en enginn er reiðubúinn að standa hér og segja að hann sé til í að banna bjórinn, fækka áfengisverslunum, hafa styttri opnunartíma eða neitt því um líkt. Hvers vegna segir þetta enginn? Vegna þess að reynslan af því er ekki góð. Reynslan af því að takmarka áfengi með þeim hætti er einfaldlega ekki góð — nema maður líti á heildarmagn neytts áfengis. Ef maður lítur á áfengismenninguna er þróunin í jákvæða átt, óumdeilt eftir því sem ég fæ best skilið. Ef við lítum á unglingadrykkju er þróunin í jákvæða átt, óumdeilt eftir því sem ég fæ best séð. Á sama tíma stefnum við í átt til frjálsræðis.

Það sama kemur fram í skýrslu sem ég las frá Bretlandi, frá 2012, sem heitir á ensku og ég mun íslenska það, með leyfi forseta, „The Dangers of Alcohol Deregulation: The United Kingdom Experience“, þ.e. hættur við afreglunarvæðingu áfengis, reynsla hins sameinaða konungdæmis, sem sé Englands. Þar eru raktir fimm áratugir af tilslökun í regluverki. Heildarneysla hefur rúmlega tvöfaldast frá 1956–2004 þegar hún fór að minnka aftur — áður en menn fóru að hækka verðið, vel að merkja, en áfengisneysla unglinga hefur farið minnkandi frá 1991 til 2010, sem er það tímabil sem þeir mæla. Breskir unglingar drekka meira í einu en bandarískir. Unglingum sem höfðu drukkið seinustu 30 daga fækkaði um 33% milli 1991 og 2010 og á sama tíma dró úr dauðsföllum vegna ölvunaraksturs um 48%. Drykkja og fylliríisdrykkja unglinga er í sögulegri lægð þótt mikil sé. Það er ekki margt sem ég vil taka mér til fyrirmyndar frá Bretlandi en þegar þróunin er í rétt átt verður maður að spyrja hvers vegna. Það er ekki vegna strangari löggjafar. Það er ekki vegna þess að það hafi verið meiri takmarkanir.

Síðast en ekki síst langar mig að nefna nokkra fyrirvara. Ég tel ekki að aukið frjálsræði í þessum málaflokki leiði sjálfkrafa af sér minni áfengisneyslu unglinga eða leiði sjálfkrafa af sér færri vandamál við þá neyslu sem vissulega eykst. Ég tel annað og meira þurfa að koma á móti til að stýra þróuninni í þá átt, en ég tel að það sé óhjákvæmilegt hvað svo sem við gerum í sambandi við frjálsræði. Við þurfum að efla forvarnastarf. Við þurfum að halda áfram því góða starfi sem við vitum að virkar, sem er búið að reyna og er búið að takast fjári vel. Það er mikilvægt að það fylgi með.

Fyrr í andsvörum mínum við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon nefndi ég breytingartillögu sem hann lagði fram í umræðum um bjórlögleiðingu árið 1988. Þar stakk hann upp á því að 75 millj. kr. yrði varið á ári á þáverandi verðlagi í forvarnir og slíkt starf. Í þessu frumvarpi er sérstaklega imprað á því að efla þurfi það starf líka, sem mér finnst gott, mér finnst það mikilvægt. Flutningsmönnum tillögunnar finnst það mikilvægt, sem það er.

Mig langar að setja örstutta fyrirvara í lokin við það sem ég er ekki sannfærður um hvað frumvarpið varðar þó að rök séu fyrir sumum ákvæðum frumvarpsins:

Í fyrsta lagi finnst mér opnunartíminn skrýtinn. Mér finnst skrýtið að hætta að selja áfengi klukkan átta á kvöldin, um það bil þegar maður hefði haldið að það væri eðlilegt fyrir hófsemdarmann að fá sér einn eða tvo bjóra með stuttum fyrirvara. Ég hef ekki trú á því að það sé gott. Ég hefði alla vega viljað hafa það til miðnættis, helst allan sólarhringinn ef ég á að segja alveg eins og er, en ekki til átta. Mér finnst skrýtið að mega bara selja áfengi á þeim tímum sem maður mundi ekki búast við því að fólk væri að drekka.

Sömuleiðis er ég ekki endanlega sannfærður um að það sé góð hugmynd að flytja allt áfengi yfir í búðir. Bjór og léttvín tel ég að hefði jákvæð áhrif á áfengismenninguna til lengri tíma en hvað varðar sterka áfengið er ég ekki sannfærður. Ég skil þó þau rök að það sé ekki rekstrargrundvöllur fyrir ÁTVR með sterkt áfengi víða um landið. Ég er ekki með fullkomna lausn á því en vafi minn á þessu er samt sem áður til staðar og þess vegna er ég pínulítið efins. Ég hef ekki mótað endanlega afstöðu mína í þessu máli enda er bara 1. umr. í gangi, nefndarumræðan er eftir, sömuleiðis hinar fjölmörgu umsagnir sem munu vafalaust berast og síðast en ekki síst hin eina sanna 2. umr.

Það þriðja sem ég hef að athuga við þetta frumvarp að svo stöddu er að áfengissölualdurinn, þ.e. sá aldur sem starfsmaður þarf að vera á, er einungis 18 ár þegar áfengiskaupaaldurinn er 20. Ég tek mikið mark á þeim rökum sem margir andstæðingar frumvarpsins hafa borið hér fram, sem eru þau að 18 ára einstaklingur sem vinnur í slíkri búð og er að selja áfengi á mjög erfitt með að hafna öðrum sem eru í sama bekk eða ári eldri og segjast vera tvítugir. Ef ég hugsa til baka hefði ég sennilega trúað viðkomandi, það virðist einfaldast og auðveldast í stöðunni. Ég skil því þau rök, tek mark á þeim og tek undir þau. Mér finnst þetta skrýtið. Hugsanlega er hægt að hækka þennan aldur upp í tvítugt, hugsanlega er hægt að hækka hann meira. Það yrði aukavesen fyrir þá sem vilja selja áfengi, sem þeir þyrftu bara að lifa við að mörgu leyti. Ég tek að minnsta kosti undir þá gagnrýni.

Síðast en ekki síst, þótt tíma mínum sé lokið, þykja mér rökin um sýnileika ekki standast skoðun vegna þess að sýnileiki áfengis er mjög mikill nú þegar. Ef maður gengur niður Austurstræti sér maður helling af áfengi, helling af mjög sterku áfengi, það er ekki séns að komast hjá því að horfa á það. Ég gef einfaldlega ekkert fyrir þessi sýnileikarök. Áfengi er mjög sýnilegt í okkar samfélagi hvort sem maður gengur úti á götu og er ekkert inni í búðum eða fer inn í einstakar verslanir á landsbyggðinni þar sem ríkið (Forseti hringir.) er vissulega … (Forseti hringir.) Ég gef lítið fyrir þau rök.