144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[16:04]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga fyrir þetta svar sem var mjög gott og rökfast eins og venjulega.

Ég er enn svo upptekinn af þessu, ekki síst vegna þess að ég er sjálfur óvirkur alkóhólisti og þekki afleiðingar þess að drekka of mikið áfengi og hvaða áhrif það hefur á umhverfið. Ég er svo sannarlega sammála mörgum sem hafa sagt að þetta sé fyrst og fremst lýðheilsumál. Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá því í vor bendir stofnunin þjóðum heims á að fylgja fordæmi ríkja eins og Íslands þar sem ríkisstjórnir hafa markað stefnu til að draga úr ofneyslu áfengis. Mér finnst einhvern veginn og það er mín skoðun að þetta frumvarp geri það ekki. Ég held að þetta sé akkúrat í hina áttina.

Ég spyr því hv. þingmann hvort hann trúi því virkilega að þetta muni ekki hafa áhrif til hins verra.