144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[16:20]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er orðin nú þegar löng umræða um þetta mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak.

Ég, eins og sá þingmaður sem talaði á undan mér, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, velti mikið fyrir mér: Hvers vegna er þetta frumvarp komið fram? Hverju er verið að reyna að koma fram í samfélaginu? Er verið að auka frelsi — fyrir hvern?

Ég komst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa skoðað frumvarpið dálítið vel og farið yfir greinargerðina og allt það sem þar er, að þá gæti maður kannski sagt í nokkrum setningum að frumvarpið sé tillaga um að banna ríkinu að selja áfenga drykki, auka frelsi kaupmanna til að græða á sölu slíkra drykkja. Svo einfalt er málið í mínum huga. Öll greinargerðin er síðan tilraun til að réttlæta það og með mjög misvísandi rökum. Þá segir maður: Það þarf að skoða það í samhengi af hverju verið er að ræða um byggðamál í þessu samhengi. Af hverju er verið að ræða um hugsanlegar hættur, magnaukningar á sölu, hvernig hægt er að auka forvarnir? Af hverju er verið að ræða það? Til að réttlæta það að ríkið afsali sér eða því verði bannað að selja áfenga drykki og leyft verði að selja það í búðum þar sem menn geti haft af því hagnað. Svona lítur málið við mér.

Ég er ekki tilbúinn að taka þá áhættu. Þetta snýst ekki um neysluvenjur fyrir mér. Ég ætla að þakka flutningsmönnum frumvarpsins fyrir að gera heiðarlega grein fyrir þeim tilgangi í fyrstu málsgreinum greinargerðar með frumvarpinu. Á nokkrum stöðum er til dæmis sagt, með leyfi forseta:

„Almennt er óhætt að segja að ekki fari mikið fyrir þeirri skoðun í stjórnmálaumræðu að hið opinbera eigi að standa fyrir verslunarrekstri á Íslandi. Jafnvel má segja að það sé meginregla að hið opinbera eftirláti einkaaðilum að halda uppi slíkri starfsemi.“

Og takið nú eftir hvert framhaldið er, með leyfi forseta:

„Helstu undantekningar frá þeirri reglu eiga sér stað á sviðum þar sem einkaaðilar sjá sér ekki hag í því að ástunda verslunarstarfsemi sem þó er neytendum nauðsynleg, þá finnur hið opinbera sig stundum knúið til aðkomu.“

Ég held áfram á bls. 7 í greinargerðinni. Þar kemur þessi moli sem ég kalla, þessi gullmoli, með leyfi forseta:

„Einnig má spyrja þeirrar grundvallarspurningar hvort eðlilegra sé að ríkið hirði þessar tekjur af kaupendum áfengis, sem eru skattgreiðendur, en einkaaðilar.“

Að það sé frekar ríkið en einkaaðilar. Um það snýst þetta. Þetta snýst um hagsmuni. Þetta snýst um hagsmuni þeirra sem hugsanlega geta haft af því gagn að fá tækifæri til að selja áfengi. Það stendur hérna. Það er nóg fyrir mig að velta vöngum yfir. Er það það sem ég vil láta ráða í sambandi við sölu og umsýslu á áfengi? Og er einhver áhætta sem felst í því að velja það?

Þá komum við að hugtaki sem oft er notað í sambandi við ákveðnar vörur sem við veljum að vera ekki með, sem sagt sem ágóðahvetjandi söluvöru á markaði, þetta með ágenga sölu. Hver hefur hag af því að koma vörunni ofan í neytendur? Við höfum rætt afglæpavæðingu. Af hverju erum við að því? Það er til þess að minnka hagnaðarvonina hjá þeim sem eru að selja, til að reyna að losna við að menn geti lagt út í glæpi til að koma ákveðinni vöru á markað. Af hverju teljum við okkur trú um að það að setja þetta út í verslanir muni minnka líkurnar á því að ágeng sala verði og menn reyni að koma víni í sem mestu magni ofan í fólk? Þannig er markaðshlutverkið almennt.

Það er annað alvarlegt í þessum inngangi líka, það er þessi hugmynd sem er athyglisverð þegar menn segja að frávikið frá því að einkaaðilar séu að selja vörur sé eingöngu þegar ekki er hagnaðarvon, það er orðað þannig, ég var að lesa það. Og þá kemur að því sem hefur einkennt samfélagið allt of mikið. Það er að við einkavæðum hagnaðinn í samfélaginu en ríkisvæðum tapið. Það finnst mér í sjálfu sér vera vandamál almennt, þ.e. að ef einhvers staðar er gróðavon ætlumst við til að menn fái tækifæri til þess að komast inn á markaðinn til að geta selt vöruna, en ef það gengur nú svo illa að ekki er hægt að koma henni á alla staði á landinu eða — við getum tekið sem dæmi þegar menn voru að skipta með sér markaðnum í sambandi við netvæðinguna og skilgreindu markaðsvæn svæði og ekki markaðsvæn. Hvernig fór það þar sem markaðurinn átti að sjá um lausnina, réð svo ekki við það? Það eru þau svæði sem kannski hafa setið mest eftir. Það eru svona hlutir sem ég hef verið að velta fyrir mér. Hver er tilgangurinn með þessu? Af hverju, miðað við umræðuna sem var hér á undan, erum við að reyna að stíga skref í þá átt og reyna svo að grípa til ótal aðgerða til að bregðast við til að minnka skaðleg áhrif? Þetta eru þeir hlutir sem mér finnst ástæða til að velta upp.

Ég hef einnig velt mikið fyrir mér af hverju þetta er baráttumál hjá Sjálfstæðisflokknum og búið að vera það til langs tíma. Maður hefði kannski viljað sjá, ef maður vill vera kaldhæðinn og gera svolítið grín að þessu, að svona barátta frá ungum og efnilegum þingmanni, Vilhjálmi Árnasyni, þá hefði hann nú tekið upp mjólkursöluna, MS, frelsið þar, hvernig við förum með einokunina á þeim markaði og tæki þá baráttu sem baráttu fyrir frelsi neytenda til að eiga val á markaði. Ég hefði talið það vera meira atriði en þetta. En látum það nú vera.

Það sem ég hafði sett upp fyrir ræðuna, ég kemst ekki nálægt því yfir það sem mig langaði til að ræða um en fæ vonandi tækifæri til þess í nefndum síðar, því að ótal spurningar hafa vaknað.

Í fyrsta lagi: Líta flutningsmenn á áfenga drykki eins og hverja aðra dagvöru eða neysluvöru? Og um leið að hugmyndir eldri laga ÁTVR að umgangast eigi þessa vöru með samfélagslegri ábyrgð og það sé haft að leiðarljósi að t.d. engar söluhvetjandi aðgerðir séu leyfðar. Telja flutningsmenn að þetta sé rangt, að þetta sé röng stefna?

Í öðru lagi: Lýðheilsustöð, nú undir landlækni, gaf út samantekt í bók sem hér hefur töluvert mikið verið vitnað til og heitir á íslensku: Áfengi – engin venjuleg neysluvara, gefin út árið 2005. Í enska titlinum kemur viðbót, þýtt yfir á íslensku: „Rannsóknir og opinber stefnumótun“. Þá spyr maður: Fer Lýðheilsustöð, nú landlæknir, með fleipur að líta ekki á áfengi sem venjulega neysluvöru?

Í þriðja lagi: Erum við tilbúin að taka áhættuna af aukinni neyslu miðað við þá þekkingu og reynslu sem er mjög víða í sambandi við það? Þá er ég að tala um almenna neyslu og hugsanlegar afleiðingar af henni, sjúkdómar og annað slíkt. Vilja tillöguflytjendur meiri neyslu áfengra drykkja, svo dæmi sé tekið?

Það má segja hérna til gamans, af því að það er gaman að taka gullmola úr þessari greinargerð, að á bls. 8 í henni kemur þessi gullvæga setning, sem svarar þessu kannski að einhverju leyti:

„Áfengi er almenn og lögleg neysluvara“ — takið eftir því hvað stendur svo þar fyrir aftan — „eins og t.d. tóbak og skotfæri.“

Erum við þá að tala um að tóbaki, skotvopnum og áfengi eigi að stilla upp, þ.e. léttari hlutanum af þessu, við hliðina á sælgætisrekkanum, á áberandi stað svo allir sjá inni í versluninni, til að draga athygli þeirra að því að þeir muni eftir að taka með sér vöruna á leiðinni út úr búðinni til að geta átt huggulegt kvöld? Erum við hlynnt því að þetta sé formið? Það er ekkert sem hindrar það miðað við þetta ef við erum að tala um að sterku vínin séu falin.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur skilgreint áfengi sem eitt af stærstu heilsufarsvandamálum samtímans, ítrekað, og það er í þriðja sæti í dag. Nú kann að vera að hægt sé að segja að þar séu eingöngu einstrengingsleg sjónarmið á bak við, en þetta kemur samt fram aftur og aftur. Talað er um áhættuþáttinn fyrir sjúkdómum og ótímabærum dauðsföllum, hvort sem það er vegna slysa, ofbeldisverka eða vegna sjúkdóma. Þeir tilgreina það allt saman og tala um að 5,5% tapaðra góðra æviára séu vegna áfengis.

Er Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin á algjörum villigötum þegar hún heldur því fram að aðgengi og verðlag ráði miklu um áfengisneyslu? Eða þegar hún segir að allt beri að gera til að draga úr áfengisneyslu ungs fólks? Nú er spurningin hver skilgreining er á ungu fólki, hvort við tökum þá börn upp að 18 ára eða hvort við tölum um tvítugt eða eldra. Og það var athyglisvert að heyra, eins og ég nefndi áðan, frá ólíkum aðilum sem komu og eru með til þess að gera frjálslynd viðhorf, að menn segja: Magn hefur veruleg áhrif á til dæmis marga sjúkdóma, áhættuþætti, líka ofbeldi og annað slíkt, því að í magninu felst ákveðin áhætta.

Þegar menn eru að dramatísera að miklar breytingar hafi orðið hér á undanförnum árum skulum við líka átta okkur á því að enn er gríðarlega mikið af ofbeldisverkum sem tengjast áfengi á Íslandi. Það er það líka erlendis, á stöðum eins og í Danmörku þar sem menn hafa haft áfengi í búðum í fjöldamörg ár. Ég sagði í gríni þegar ég bjó í Danmörku til fjögurra ára að munurinn á Íslandi og Danmörku þá væri sá: Danirnir drukku jafn oft illa og Íslendingar, þeir voru þekktir í sólarlandaferðum, fóru í magnaðar ferðir í sumarbústaði, drukku oft jafn illa og Íslendingar en drukku að auki daglega. Og svo bera menn saman daglegu neysluna, þ.e. með mat, við vonda hlutann á Íslandi. Maður verður að skoða heildina. Danir eiga við mikil vandamál að stríða eins og aðrir og eru að grípa til fjölmargra aðgerða.

Það er eitt af því sem mér finnst vera kannski það sem ég kalla þetta frumvarp, tímaskekkju, að meira og minna í öllum heiminum er verið að grípa til aðgerða til að minnka neyslu, til að minnka aðgengið. Danir fóru út í að skilgreina hvað mætti vera mikil drykkja á dag til að teljast eðlileg í vinnutíma. Það voru reglur sem þeir settu til þess að sporna gegn. Menn drukku allt upp í 12–16 bjóra á ákveðnum vinnustöðum yfir daginn. Nú er það skilgreint sem þrír bjórar. Þeir fara í tugmilljóna og hundruð milljóna auglýsingaherferðir til að reyna að sporna gegn drykkju á föstudögum og til að segja: Komið þið heim og eyðið helginni með börnunum ykkar í staðinn fyrir að vera timbraðir eða í neyslu fram eftir helginni.

Af hverju eru þeir að þessu? Það er af því að þeir vilja breyta þessum venjum. Þess vegna finnst mér forvitnilegt að skoða í tengslum við þá umræðu sem hér hefur átt sér stað að neysluvenjurnar eru ekkert endilega tengdar frelsi. Það er alveg jafn hárrétt sem hér hefur komið fram að ekki er hægt að stjórna þessu með boðum og bönnum — nema að á bak við það sé almennur þjóðarvilji og þjóðarviðhorf, samfélagslegt viðhorf. Það var það sem gerðist gagnvart unglingum. Það voru flöskuleikir í íþróttum fyrir 16, 17 ára gamla krakka, þ.e. að spilað var um drykki. Þetta er algjörlega búið að hreinsa út úr íþróttahreyfingunni fyrir mörgum árum. Það er vegna þess að viðhorfsbreyting varð. Það hefur auðvitað ekkert með lög að gera, nema það að íþróttahreyfingin hefur sett sér markmið og sett boð og bönn sem hún fylgir fast eftir og mjög strangar reglur eru hjá mörgum af þeim aðilum.

Í viðbót við þetta er mjög forvitnilegt að skoða málið í tengslum við stefnu núverandi ríkisstjórnar, lýðheilsumarkmiðið, sem ríkisstjórnin hefur sett sér, þá kláru viljayfirlýsingu að setja af stað ráðherrahóp um lýðheilsumál sem eigi að fjalla sérstaklega um það, og kannski ætti þetta mál einmitt að fara þangað áður en það kemur til frekari umræðu, að vísað yrði bara til ráðherrahóps um lýðheilsumál hvernig þetta harmónerar saman.

Einnig er komin fram ný stefna sem heitir Stefna í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020, bæklingur gefinn út í desember 2013. Fyrsti punkturinn er „að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.“ Er þetta frumvarp í þeim anda? Ókei, við getum sagt það að með því að setja fullt af reglum í kringum þetta þá aukist aðgengið ekki endilega. Þá er eingöngu verið að tala um hver fær ágóðann. En ef aðgengi er aukið þá er það í andstöðu við stefnu núverandi ríkisstjórnar.

Eitt af því sem menn þurfa stundum ekki að rökstyðja og kemur fram víða í greinargerðinni, það er að þetta verði miklu hagkvæmara þegar einkaaðilar reka þetta, það kostaði ekki neitt af því að þeir gætu bætt þessu inn á bílana, þeir væru með allt dreifikerfið. Ég vil sjá þær tölur. Ég vil líka sjá hvað kostar að reka dreifikerfi hjá ÁTVR. Hvernig geta þeir myndað 1 milljarðs hagnað sem skilað er sem arði inn í ríkiskassann? Hvað ætlum við að setja í staðinn? Hvað með jöfnunina á verðinu úti um allt land ef við tökum byggðasjónarmiðin þar sem maður getur sagt að frumvarpið sé með brennivín fyrir byggðirnar, að auka eigi verslun úti á landi með því að færa vínbúðir þangað til að reyna að koma hagnaðinum til að gera verslanirnar arðbærar? Hvað með verðlagið þá þar? Það er jöfnun í sambandi við áfengisverð í landinu, alveg eins og Bónus býður fast verð úti um allt land, en það er það ekki í matvöru. Það eru ótal slíkar spurningar sem vakna sem þarf að skoða mjög ítarlega.

Það er svolítið hjákátlegt, eins og ég sagði, að skoða greinargerðina sem er eiginlega öll afsökun á því af hverju er verið að þessu. Rökin eru: Við ætlum að hjálpa versluninni en við ætlum að finna fullt af atriðum sem eiga að vera sem ríkið ætlar að gera til að búa til sem mótvægisaðgerðir, meðal annars að auka forvarnir í gegnum Forvarnasjóð með því að styrkja hann. Það hefur bara ekkert að gera með þetta mál, við getum gert það hvort sem er og þurfum að gera það alveg örugglega til að styðja menn í þeirri vörn sem þar þarf að koma fram. (Forseti hringir.)

Það er gríðarlega margt ósagt í þessu máli sem vonandi fæst tækifæri til að koma fram með, bæði hér í frekari umræðu (Forseti hringir.) og eins líka í nefndarvinnu í framhaldi.