144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[16:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Löggjafarþjónustan hefur verið einstaklega léleg í að koma í veg fyrir einokun. Hv. þingmaður nefnir einmitt að það sem kemur til með að gerast ef þetta frumvarp verður að lögum er að áfengi fer úr ríkissölu í nokkurs konar gróðaeinokunarsöluumhverfi hins frjálsa markaðar svokallaða. En það er allt annað vandamál sem löggjafinn verður að glíma við á þeim vettvangi. Það kemur þessu frumvarpi ekkert við.

Við verðum að tala um upplýstar ákvarðanir, ekki þingmanna heldur neytenda og samfélagsins, þjóðarviljans sem hv. þingmaður talar um. Aðgengið hefur nefnilega aldrei verið vandamál fyrir þá sem ætla og þá sem vilja. Aðgengið hefur bara verið vandamál fyrir þá sem þurfa með stuttum fyrirvara að útvega rauðvín með matnum eða bjór fyrir spilakvöldið. Það hefur aldrei verið vandamál fyrir áfengisfíklana að útvega sér áfengi nema að þeir hafi kannski ekki pening. Frelsið snýst dálítið um að fá að velja á milli góðra valmöguleika þar sem neytandinn er upplýstur og valið er hjá neytendum og samfélaginu. Ég veit ekki af hverju við erum að skipta okkur of mikið af þessu nema af því að við titlum okkur löggjafarvald, en við erum í raun og veru löggjafarþjónusta og ættum að hlusta aðeins meira á það sem er að gerast í samfélaginu.

Vegna annars sem hv. þingmaður nefndi langaði mig til að spyrja á móti: Hefur áfengi nokkurn tíma klárast í ÁTVR? Það er alltaf til nægilega mikið áfengi þannig að ég skil ekki alveg rök hans þar að lútandi.