144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[16:49]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta mál er ekki nýtt. Hvaða lausnir eru bestar? Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að það skiptir máli að ræða það.

Ástæðan fyrir því að ég hef skýra afstöðu í þessu máli er að ég hef býsna mikla reynslu af umgengni við ungt fólk, og við foreldra og um það hvernig við breytum umhverfinu og hvernig við gefum ákveðin skilaboð. Það er ekki endilega gert með boðum og bönnum eða lögum eða reglum. En takið eftir því að hér erum við að breyta lögum. Við erum ekki að fara í auknar forvarnir til að breyta vínmenningu, (Gripið fram í.) við erum að búa til ný lög í þágu einhverra og þá spyr maður: Í þágu hverra?

Ég sé ekki að þetta sé í þágu neinna annarra en verslunareigenda og þeirra sem selja áfengi. Vandamálið þegar við berum saman Mjólkursamsöluna og vínbúðir er að mér finnst ekkert endilega neikvætt að koma mjólk ofan í börn eða ungt fólk eða stuðla að því að menn eigi kost á hollri vöru og neyti hennar, hún sé kynnt og auglýstir kostir hennar og gallar og slíkt. Ég hef efasemdir um að það eigi að gilda líka um áfengi. Í því liggur munurinn.

Það væri auðvitað gaman og ánægjulegt ef þetta yrði tekið lengra eins og kom hér fram í umræðu og er mjög skemmtilegur vinkill. Úti í Evrópu er það t.d. orðið þannig að ég fer ekki inn á veitingastað, jafnvel ekki í vöruhús eða kringlur þar, öðruvísi en ég fái matseðil þar sem stendur kaloríufjöldi máltíðarinnar. Það er vegna þess að menn eru farnir að hafa lýðheilsumarkmið. Hér erum við með vöru sem þessi markmið gilda ekkert um, hvorki sykurinnihald né kaloríufjöldi. Ég tek þetta bara sem eitt dæmi.

Áfengi er auðvitað landbúnaðarvara sem á sér langa sögu og er hluti af mjög stóru atvinnulífi úti í heimi. Það eru aðilar sem hafa gríðarlega hagsmuni af því að selja það. Ríki í allri Evrópu þori ég að fullyrða eru að berjast gegn því að magnið aukist vegna skaðseminnar. Þá er spurningin: Hvernig gerum við það best? Ég vil alveg taka þátt í þeirri umræðu. (Forseti hringir.) Ég er búinn að móta mér skoðun að fenginni reynslu en ef það eru lagðar fram einhverjar nýjar upplýsingar þá skoða ég þær.