144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[16:51]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er lagt fram frumvarp um afnám einkaleyfis Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis. Þetta frumvarp hefur reyndar verið lagt fram áður, ekki einu sinni, ekki tvisvar eða þrisvar heldur að minnsta kosti sex sinnum. Er það ekki farið að hljóma eins og rispuð plata?

Til allrar guðs lukku hafa þessi frumvörp hingað til ekki fengið brautargengi, þökk sé skynsömum þingmönnum á fyrri þingum hvernig sem meiri hluta hefur verið háttað. Að það skuli vera ungur lögreglumaður, þriggja barna faðir og bindindismaður í þokkabót sem leggur þetta frumvarp fram er hins vegar nokkuð athyglisvert.

En kannski ekki svo. Mér er sagt að alltaf hafi ungir sjálfstæðismenn lagt fram þessi frumvörp og tilgangurinn sé sá að komast í sviðsljósið. Það hefur 1. flutningsmanni, hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, svo sannarlega tekist. Ég trúi að reynsluleysi hv. þingmanns í skóla lífsins valdi því að hv. þingmaður lætur leiða sig inn á þessa braut.

Að hunsa með öllu varnaðarorð samtaka sem glíma við vandamál sem fylgja ofneyslu vímuefna eins og áfengis ber vott um ákveðið reynsluleysi. Á vef landlæknis er vakin athygli á því að skýrt kemur fram í alþjóðlegum rannsóknum að neysla áfengis eykst við að einkasölu er aflétt. Í tillögum velferðarnefndar Norðurlandaráðs kemur fram að aukið aðgengi og sýnileiki áfengis auki sölu samkvæmt sænskum og bandarískum rannsóknum og að við frjálsa sölu áfengis aukist salan ekki um 1–2% heldur 37–44%.

Ég er hér með bunka af alþjóðlegum skýrslum og get verið fram eftir degi að lesa úr þeim, en ég ætla aðeins að drepa niður hér og þar. Ég hef ekki fundið eina línu sem bendir til þess að áfengisneysla standi í stað við aukið aðgengi, hvað þá að hún minnki. Allar þessar skýrslur ber að sama brunni, áfengisneysla eykst með auknu aðgengi og það er í takt við tilfinningu mína og reynslu í lífinu.

Í þessari skýrslu velferðarnefndar Norðurlandaráðs kemur einnig fram að almennar forvarnir séu galdralausnin en það er ekki svo. Þar kemur fram að það eru ekki forvarnir sem skipta máli. Þær skipta máli en raða sér ekki í efstu sjö sætin þar sem þessu var raðað eftir áhrifum. Aðalmálið er að minnka aðgengi og sýnileika. Forvarnir og fræðsla gegn tóbaki voru ekki galdralausnin, þær unnu með og skipta að því leyti máli. Árangur í tóbaksvörnum var hins vegar aðallega vegna þess að dregið var úr aðgengi og sýnileika. Við hættum að líta á tóbak sem vöru sem væri hampað.

Eins og ég sagði ætla ég ekki að lesa allar þessar skýrslur hérna því að það væri bara endurtekning. Ég ætla að drepa niður í eina frá hinu frjálsa ríki, hinum frjálsu Bandaríkjum:

Afleiðingar þess að hafa lagt niður einkaleyfi ríkis á sölu áfengis í Washington-fylki árið 2011. Niðurstaða: Ávinningur íbúa Washington-fylkis var rýr. Áfengisverð hækkaði strax um 12%, of snemmt að meta samfélagsleg áhrif. Þeir sem hafa hagnast á nýju reglugerðinni eru Costco og aðrar stórar verslunarkeðjur. Minni búðir gátu ekki keppt við stóru verslanirnar. Margar vínverslanir urðu gjaldþrota. Reglugerðin leiddi til þess að markaðinum er stjórnað af stóru verslunarkeðjunum, reglugerðin samin þannig að gjöld voru lögð á heildsala en ekki smásala, þ.e. stóru verslunarkeðjurnar sluppu. Minni áfengisframleiðendur eiga erfiðara uppdráttar. Þjófnaður jókst. Sterkar vísbendingar benda til þess að áfengissala og óhófleg neysla áfengis aukist í kjölfar einkavæðingar á sölu áfengis. Ríkisrekstur á sölu áfengis stuðlar að minni skaðsemi en einkavæðing.

Hérna er önnur:

Fyrirkomulag áfengissölu í fylkjum Bandaríkjanna er skoðað og metnar afleiðingar einkavæðingar áfengissölu. Fylki með stýrða áfengissölu eru líklegri til að halda úti verslunum á fámennum svæðum. Fylki með stýrða áfengissölu neyta 13% minna af sterku áfengi og 7% minna af áfengi meðal 15 ára og eldri. Einkavæðing vínbúða eykur áfengisneyslu og skaðsemi af völdum þess, svo sem líkamsárásir, sjálfsvíg, umferðarslys, lifrarbólgu og fleiri sjúkdóma. Samfélagslegur kostnaður af völdum áfengisneyslu hefur verið metinn meiri en tekjur hins opinbera af virðisaukaskatti, leyfisgjöldum, tekjuskatti, aðflutningsgjöldum og vörugjöldum.

Hérna kemur ein frá Svíþjóð:

Mögulegar afleiðingar þess að leggja niður einkaleyfi ríkis á sölu áfengis í Svíþjóð og taka upp frjálsa verslun. Niðurstaða: Tvö tilfelli tekin fyrir. Skipta út einkaleyfi ríkis fyrir aðrar einkareknar verslanir með áfengisleyfi og hins vegar leyfa áfengissölu í matvöruverslunum. Fyrra tilfellið er talið skila 17% aukningu í áfengisneyslu sem mundi fjölga dauðsföllum um 770 og líkamsárásum um 8.500. Veikindadögum mundi fjölga um 4,5 milljónir á ári. Seinna tilfellið er talið skila 37,4% aukningu áfengisneyslu sem mundi fjölga dauðsföllum um 2.000 og líkamsárásum um 20.000. Veikindadögum mundi fjölga um 11,1 milljón á ári.

Hér er könnun:

Mikilvægi stýrðrar áfengissölu í Kanada og öðrum löndum. Niðurstaða: Mikilvægar ástæður eru fyrir því að varðveita einkaleyfi ríkis á sölu áfengis, svo sem lýðheilsa. Einkavæðing áfengissölu getur hvatt til magnafsláttar. Markaðssetning mundi beinast að ungu fólki.

Svíar eru búnir að kanna þetta líka. Hér er ein, með leyfi forseta:

Áhrif þess að hætta sölu á miðlungssterkum bjór í matvöruverslun 1977 í Svíþjóð. Hefði miðlungssterkur bjór ekki verið seldur í matvöruverslunum á árunum 1965–1977 hefði neysla áfengis verið 15% minni. Áfengisverslun einstaklinga var 8% minni árið 1979 miðað við árið 1977. Dauðsföll og veikindi af völdum áfengisneyslu minnkuðu umtalsvert á árunum 1978–1984, sérstaklega meðal ungmenna. Tíðni skaðsemi af völdum áfengis var mun hærri þegar miðlungssterkur bjór var til sölu í matvörubúðum. Tíðni skorpulifrar var sérstaklega há yfir tímabilið sem miðlungssterkur bjór var leyfður í matvöruverslunum. Umferðarslysum fækkaði um 15% meðal 10–19 ára, 39–40 ára og 60+ eftir 1977.

Þetta ber allt að sama brunni.

Hérna kemur ein:

Mögulegar afleiðingar þess að hætta með núverandi fyrirkomulag á sölu áfengis í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Niðurstaða: Aukning um 1 lítra af alkóhóli á áfengisneyslu mundi auka tíðni dauðsfalla vegna áfengisneyslu um 9,5% í Svíþjóð og 9,7% í Noregi. Aukning um 5 lítra af alkóhóli í áfengisneyslu mundi auka tíðni dauðsfalla vegna áfengisneyslu um 62% í Svíþjóð og 60% í Noregi. Aukning á fjölda áfengisverslana er talin ýta meira undir aukna áfengisneyslu en aukning á veitingastöðum og börum með vínveitingaleyfi. Neysla áfengis hefur tilhneigingu til að vera minni þegar aðgengi er stýrt.

Hér kemur könnun frá virtum velferðarsamtökum í Bandaríkjunum á vegum hins opinbera:

Tengsl áfengisneyslu og skaða af völdum þess við aukið takmarkað aðgengi. Niðurstaða: Jákvæð tengsl milli fjölda verslana og aukinnar áfengisneyslu sem og skaðsemi, m.a. sjúkdóma, meiðsla, glæpa og ofbeldis. Stýring á aðgengi áfengis getur verið stjórntæki til að minnka ofneyslu áfengis og neikvæðar afleiðingar þess.

Á árunum 1955–1980 jókst áfengisneysla um rúma 10 millilítra hreins áfengis fyrir hvert áfengissöluleyfi sem bætist við á hverja 1 þús. einstaklinga. Tengsl eru á milli fjölda áfengisverslana og dauðsfalla vegna skorpulifrar. Jákvæð tengsl eru á milli sjálfsvíga meðal 10–24 ára einstaklinga og fjölda vínbúða. Árásum og spítalaheimsóknum fjölgar með fleiri vínbúðum.

Hér kemur ein:

Kannaður er kostnaður og ávinningur af einkasölu ríkis á áfengi og dreifingu. Byggt á þriggja áratuga gögnum frá ýmsum fylkjum Bandaríkjanna. Niðurstaða: Fylki með ríkisrekstur fengu tvöfalt meiri tekjur en fylki sem seldu áfengisleyfi til verslana. Fylki með einkaleyfi á sölu áfengis fengu inn meiri tekjur af áfengissölu, jafnvel þótt þau seldu minna magn en fylki sem höfðu einkavætt áfengissölu. Áfengisneysla var 12–15% minni í fylkjum með ríkisrekstur. Vísbendingar eru um að ríkið sé ábyrgari söluaðili áfengis en einkaaðili.

Tengsl áfengisneyslu og hagvaxtar í Bandaríkjunum, gögn frá 1971–2007 skoðuð. Niðurstaða: Aukning á áfengisneyslu tengd við minni hagvöxt og minnkun á áfengisneyslu tengd við aukinn hagvöxt. Hækkun á áfengisskatti eykur hagvöxt.

Mat á samfélagslegum kostnaði sem fylgir einkavæðingu á áfengissölu, hér kemur könnun frá Kanada. Niðurstaða: Skaðsemi af völdum áfengis mun aukast ef öll fylkin í Kanada hætta með þau höft sem lögð eru á áfengissölu. Ef öll fylki í Kanada mundu einkavæða sölu áfengis mundi áfengisneysla aukast um 10–20%. Samfélagslegur kostnaður mundi aukast, óbein áhrif einkavæðingar á áfengissölu væri minni landsframleiðsla vegna ótímabærra dauðsfalla og veikinda.

Ég spyr: Er minni hagvöxtur og minni landsframleiðsla það sem við þurfum hér?

Aðeins í lokin er úttekt á áfengisnotkun og heilsufari í heiminum:

Áfengisneysla í OECD-ríkjunum. Niðurstaða: Ísland, Noregur og Svíþjóð skipa sér í hóp þeirra Evrópulanda í OECD sem drekka minnst af áfengi, í kringum 7 lítra á einstakling árið 2010. Meðaltal OECD-landa er 9–10 lítrar á einstakling.

Af hverju skyldi það vera?

Sama evrópska rannsókn gerð á fjögurra ára fresti sem skoðar áfengis- og vímuefnanotkun ungmenna 15–16 ára. Niðurstaða: Íslensk ungmenni á aldrinum 15–16 ára neyta hvað minnsts áfengis miðað við önnur ungmenni í Evrópu, bæði þegar horft er til heildarneyslu yfir eitt ár og heildarneyslu síðustu 30 daga. Noregur, Svíþjóð og Finnland raða sér öll neðarlega yfir lönd þar sem drykkja ungmenna er lítil. Í Danmörku er ungmennadrykkja með því hæsta sem gerist í Evrópu.

Svona má lengi telja, ég gæti verið hér í allt kvöld.

Aðeins að lokum, á bls. 8 í frumvarpinu stendur:

„Sérstök áhrif á landsbyggðinni.

Samþykkt frumvarpsins mun hafa góð áhrif á verslun á landsbyggðinni.“

Hvað með lýðheilsu og almannaheill? Er það bara verslunin sem skiptir máli? Er þetta hin nýja byggðastefna? Ég get að minnsta kosti sagt að þetta er ekki stjórnarfrumvarp og þetta er ekki byggðastefna ríkisstjórnarinnar, svo mikið er víst. Er meira áfengi það sem brothættar byggðir þurfa á Íslandi?

Á bls. 11 er talað um tækifæri litlu brugghúsanna. Ég er búinn að heimsækja lítið brugghús og það var ekki bjartsýnt um að fá (Forseti hringir.) hillupláss hjá stórmörkuðunum. Það benti á harðfiskssalana og kartöflubændur.

Að lokum, þetta er það mikið lýðheilsumál og það mikil samfélagsleg vandamál sem skapast af þessu að mér finnst alveg sjálfsagt og tek undir það sem margir hafa komið fram með (Forseti hringir.) að þessu verði vísað til velferðarnefndar, að sjálfsögðu.