144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór með athyglisverðar tölur og hefur greinilega náð sér í efni og rannsóknir, sem var áhugavert á að hlýða, frá Bandaríkjunum eða ýmsum fylkjum Bandaríkjanna, Svíþjóð, Kanada, Finnlandi og Noregi. Auðvitað gætum við sótt víðar í reynslubankann. Ég var að velta fyrir mér hvort maður ætti að þora að nefna hér á nafn Grænland í þessari umræðu og þau hrikalegu vandamál sem á köflum hafa verið uppi í því samfélagi, þar á meðal í litlum byggðum þar sem áfengi er í búðum og afar litlar takmarkanir á því hvernig með það er farið. Á Grænlandi er hægt að koma inn í gömlu KNH-verslanirnar þar sem viskí og bjór er í einni hillu og haglabyssur, rifflar og skot í þeirri næstu. Ætli það samfélag hafi ekki fengið sinn skammt af hörmungum út af því að hafa innflutt hráa, danska áfengisstefnu og ekki gefist vel?

Þá vaknar spurningin: Hvaða rannsóknir höfum við eða við hvað getum við stuðst að þessu leyti? Þær eru fátæklegar. Ég hef til dæmis hvergi séð að menn hafi gert tilraun til að reyna að meta og tölusetja líkleg áhrif af því að hverfa frá ríkiseinkasölu yfir í það að færa einkarekinni verslun þetta eins og Svíar og fleiri hafa greinilega gert, samanber það sem fram kom í máli hv. þingmanns.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður treystir sér til að velta upp mögulegu yfirfærslugildi þessara upplýsinga á þeim grunni sem hann hefur verið að skoða þetta mál. Getum við leyft okkur, a.m.k. að einhverju leyti, að líta svo á að þar sem þessar rannsóknir eru það nærri okkur annars staðar á Norðurlöndunum þá hafi vísindalegar niðurstöður að þessu leyti yfirfærslugildi, auðvitað eru þetta áætlanir en samt eins vel ígrundaðar og hægt er, þannig að við megum búast við einhverju svipuðu hér? Maður getur líka spurt: Hvers vegna ekki? Af hverju skyldum við ekki komast að hliðstæðum niðurstöðum verandi með mjög sambærilegt kerfi ef við breyttum því í þessa átt?