144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:21]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi margar rannsóknir frá Bandaríkjunum og ríkjum þess og Kanada og víðar og vitnaði í þær. Hefur hann borið þær saman við það sem er að gerast hérna á Íslandi? Hann nefndi m.a. fleiri slys, fleiri komur á slysadeild út af áfengisneyslu og slíkum atriðum.

Nú hefur vínbúðunum hér fjölgað um tæplega 300% á síðustu árum. Hefur aukningin verið sú sama hér á landi? Eru til tölur um það? En við höfum alla vega tölur um að það er sama þróunin hér á landi og í Bretlandi, þ.e. að þrátt fyrir aukið aðgengi og breyttar áherslur hefur unglingadrykkja dregist saman, við getum borið það saman. Hefur það sama gerst varðandi komur á slysadeild og vandamál hjá lögreglu og annað slíkt? Hefur hv. þingmaður þær tölur? Hann kom með tölur frá Bandaríkjunum, fyrst við tölum um heilbrigðiskerfið. Í sumum ríkjum Bandaríkjanna tekst vel til og um er að ræða svipaða menningarheima. Er hv. þingmaður þá að boða það að hann vilji taka upp sama heilbrigðiskerfi hér eins og þar? Hann treystir SÁÁ og þessum samtökum. Jú, gott og vel. Þau segja að aukið aðgengi auki neysluna. Þau segja að allir peningar sem fari í forvarnir fari allir í auglýsingamennsku. Það er eins og vínbúðirnar, þær reka forvarnastefnu sína í gegnum auglýsingar og áróður, en SÁÁ sagði á sama tíma við mig að það skilaði engu. SÁÁ sagði að það væru margar rannsóknir til um að svona forvarnir skiluðu ekki neinu. Við leggjum til að óhagræði vínbúðanna verði breytt í hagræðingu fyrir ríkissjóð til að auka forvarnir sem virka samkvæmt SÁÁ.