144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:27]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður fær stundum upp í kok af hagræðingu. Það er svo margt sem á að gera í skjóli hagræðingar. Ég kalla það ekki hagræðingu að færa verkefni frá ríki til einkaaðila. Í þágu hverra er verið að hagræða ef á að færa hagnaðinn yfir á annan aðila og sitja svo eftir með kostnaðinn sem fylgir auknu vandamáli? Hvort vínbúð er á Flúðum eða í Reykholti — við búum í dreifðu landi og þá er það bara þannig að það er ekki alveg sama þjónustan í öllum byggðakjörnum, litlum sem stórum. Þeir sem búa í litlum byggðakjörnum sætta sig við það að fá ekki alveg sömu þjónustu. Ég hugsa að (Forseti hringir.) það sé önnur þjónusta sem litlu sveitarfélögin mundu heldur vilja en að fá brennivínsbúð.