144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:28]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er staðreynd að stjórnvöld hafa sett sér yfirmarkmið í áfengis- og vímuvörnum fram til ársins 2020. Eitt af þeim markmiðum er að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímuefnum og að mínu mati er það því nokkuð sérstakt að leggja fram frumvarp sem mun að öllum líkindum auka aðgengi að áfengi þar sem lagt er til að sala þess fari fram í verslunum landsins. Tel ég það stangast á við þau markmið sem sett hafa verið fram af stjórnvöldum og vitnað var í hér að framan.

Ýmsar rannsóknir hafa sýnt fram á að afnám á einkasölu á áfengi muni leiða til aukinnar einkaneyslu. Embætti landlæknis hefur meðal annars bent á að með aukinni áfengisneyslu aukist samfélagslegur kostnaður. Einnig hefur það komið fram og líka í alþjóðlegum rannsóknum, enda er vandamálið á heimsvísu, að þegar kemur að vanda er tengist áfengisneyslu hvað varðar fjölda tapaðra lífára þá er það hlutfall jafn hátt og hlutfall heilsuleysis og tapaðra lífára vegna notkunar tóbaks.

Þessar upplýsingar komu mér talsvert á óvart þar sem mikil herferð hefur verið gegn notkun tóbaks bæði með merkingum á vörunni sjálfri auk þess sem tóbaksvaran er ekki lengur sjáanleg í verslunum. Sömu upplýsingar eru ekki á merkingum á áfengisflöskum. Merkingar á tóbaki gefa vel til kynna þau neikvæðu áhrif sem tóbak getur haft á heilsu einstaklinga en litlar sem engar upplýsingar er að finna um skaðsemi áfengis. Ekki er heldur að finna neinar upplýsingar um hversu margar hitaeiningar eða þess háttar séu í flösku eða dunki eða hvað sem við köllum þetta. Samt sem áður hefur komið fram í ýmsum erlendum greinum er varða áfengisnotkun og lýðheilsu að skaðsemi af völdum áfengis er mikil í Evrópu og um 10% af ótímabærum sjúkdómum séu til komnir vegna áfengisneyslu. Jafnframt hefur komið fram að eitt af hverjum sjö tilvika ótímabærra dauðsfalla megi rekja til áfengisneyslu karla en eitt af hverjum þrettán til áfengisneyslu kvenna.

Fram hefur komið að ein besta aðferðin til að stemma stigu við notkun áfengis sé að takmarka sölu þess við ákveðna staði og með ákveðnu eftirliti svipað og gert er á Íslandi nú í dag. Jafnframt hefur komið fram í erlendum rannsóknum, m.a. rannsóknum sem velferðarnefnd Norðurlandaráðs hefur stuðst við í verkefnum sínum, að með auknu aðgengi að áfengi séu ýmsar vísbendingar um að áfengisdauði og umferðarslys af völdum áfengis hafi aukist og einnig hafi ofbeldi farið vaxandi. Í erlendum greinum sem er einnig að finna í gögnum frá velferðarnefnd Norðurlandaráðs má til dæmis sjá að tengsl eru á milli áfengisneyslu, svefns og frammistöðu í háskóla. Áfengisneysla getur haft marktæk áhrif á lengd svefntíma og óreglu í svefnvenjum og jafnframt hefur áfengisneysla marktæk áhrif á einkunnir og námsárangur nemenda.

Virðulegur forseti. Mikið starf hefur verið unnið í forvörnum í skólum landsins og hjá ákveðnum samtökum, m.a. Heimili og skóla og foreldrafélögum. Mikil vitundarvakning hefur verið um skaðsemi áfengis og reynt hefur verið að finna leiðir til að hækka þann aldur þegar börnin okkar byrja að neyta áfengis. Sem betur fer hefur árangurinn verið mælanlegur þannig að börn byrja nú seinna að drekka en áður og kemur það fram í könnunum sem hafa stundum verið lagðar fyrir nemendur í grunnskólum landsins. Það er virkilega jákvætt því að samhengi er milli neyslumynsturs og þess hvenær viðkomandi byrjar að drekka. Það hefur sem sagt jákvæðari áhrif á þroska barna ef þau byrja seinna að drekka og vonandi ekki fyrr en á fullorðinsárum. Samhengið milli þess að byrja seinna að drekka er að neyslumynstrið verður betra eða jákvæðara.

Margir hafa unnið að forvörnum með börnum og unglingum. Sá þingmaður sem hér stendur hefur meðal annars unnið að forvörnum í foreldrafélögum og með samtökum á vegum Heimilis og skóla. Sumir sem hafa unnið að þessum málum hafa sett sig í samband við mig og lýst yfir áhyggjum af því hvaða afleiðingar þetta frumvarp geti haft á þann árangur sem náðst hefur á undanförnum árum.

Frú forseti. Ég ætla að koma aðeins inn á samfélagslegan kostnað. Þar sem lagt hefur verið til að áfengissala fari fram í verslunum en ekki á vegum ríkisins hefur kostnaðarávinningur af einkasölu verið kannaður. Rannsóknir og greinar þess efnis byggja á þriggja áratuga gögnum frá ýmsum fylkjum Bandaríkjanna. Þar kemur fram að þegar ríkið var með sölu á áfengi þá var áfengisneysla um 12–15% minni. Hún jókst sem sagt um þessar prósentur við að salan færi til verslana. Þarna eru sterkar vísbendingar um að ríkið sé ábyrgari söluaðili áfengis en einkaaðilar.

Ég spurði mig þegar ég las þetta hvernig við ættum að tryggja þætti eins og aldurstakmark við afgreiðslu áfengis og ýmsa forvarnaþætti ef áfengi er selt í verslunum. Ef við förum t.d. í Bónus, ef ég nefni þann stað, með leyfi forseta, þá vinna þar margir ungir krakkar. Hvernig mun afgreiðslan fara fram? Þegar maður sér einhvern kaupa sér tóbak í dag þá er oft mikið handapat og reynt að finna einhvern fullorðinn til að koma á kassann til að afgreiða tóbakið af því að unglingurinn má það ekki. Hvernig ætti fyrirkomulagið að vera við þessar aðstæður ef farið væri að selja vín þarna og barn sem er undir lögaldri er að afgreiða og hefur verið að selja þarna mjólk og aðrar vörur sem hafa alltaf verið til sölu? Hvernig á að tryggja það? Þetta er einn þáttur sem ég spyr mig svolítið að.

Síðan er önnur rannsókn frá Kanada. Þar var gert mat á samfélagslegum kostnaði sem fylgdi einkavæðingu áfengissölu. Gerð var greining á því að ef öll fylki í Kanada mundu einkavæða sölu áfengis þá mundi áfengisneysla aukast um 10–20%. Við getum hugsað til þess ef við yfirfærum þetta á okkur. Ég tel vel hægt að yfirfæra þessar upplýsingar á íslenskt þjóðfélag vegna þess að Íslendingar eru aðilar að Norðurlandaráði, íslenskir þingmenn og íslenska ríkið. Þessi gögn eru þaðan og þess vegna tel ég að þau séu marktæk fyrir okkur þar sem við erum aðilar að þeirri alþjóðanefnd sem fjallar um þessa þætti. Aðilar eins og SÁÁ, læknar og fleiri hafa lýst yfir áhyggjum af þeim samfélagslega kostnaði sem þetta getur haft ef áfengisneyslan eykst.

Ef áfengissala verður gefin frjáls er oft sagt að það sé betra, það sé neytandanum í hag og að líklega muni verð lækka út af meiri samkeppni o.fl. Ef við lítum til Washington-fylkis þá voru afleiðingar þess að leggja niður einkaleyfi ríkis á sölu áfengis skoðaðar árið 2011 og þar kom fram að verð á áfengi hækkaði um 12%. Það er því ekki sjálfgefið að verð lækki ef við erum að hugsa um hag neytenda. Svo kom jafnframt í ljós að þar voru stórir risar á markaði sem erfitt var fyrir litlu búðirnar að keppa við og þeir gátu í stærð sinni knésett þá litlu með framboði þessarar vöru.

Ef við horfum til Íslands í þessu samhengi þá erum við lítil þjóð og ég mundi telja að hér á landi gætum við varla talað um samkeppni. Þetta yrði nánast fákeppni hér á landi. Í því sambandi hugsar maður um kaupmenn úti á landi sem maður hefur séð fara í stóru verslunarkeðjurnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem þeir hafa keypt vörur og selt þær síðan á sínu verði í búðum sínum. Hvernig yrði þetta hér á landi ef áfengissala væri gefin frjáls og stórir heildsöluaðilar færu að flytja áfengi inn og næðu jafnvel að vera með mun lægra verð en hinir? Hvaða áhrif hefði það á markaðshlutfallið hér á landi ef einn stór aðili gnæfði jafnvel yfir alla aðra? Mundu litlu kaupmennirnir á landsbyggðinni þurfa að kaupa áfengi í Bónus og selja á uppsprengdu verði víða um land? Það þætti mér ekki gott.

Hér með lýk ég orðum mínum.