144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

notkun á landsléninu .is.

[13:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka málið hér upp. Þetta er auðvitað mikilvægt og stórt mál. Það er hárrétt, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, að lagaumgjörðin í kringum þessi mál er ekki skýr hér á landi. Nú er ég ekki að segja að það frumvarp sem hæstv. fyrrverandi innanríkisráðherra lagði áherslu á sé nákvæmlega frumvarpið sem leysir vandann en við erum hins vegar með það til skoðunar í innanríkisráðuneytinu, að velta því fyrir okkur og velta því upp hvernig þessi lagarammi getur best orðið. Svarið við spurningunni um hvort ég sé reiðubúin að skoða lagasetningu í kringum málið er já. Það þarf að skoða það með einhverjum hætti og rýna þá stöðu sem kom til dæmis upp núna um helgina.

Það sem við verðum líka að gæta okkur á og hefur verið bent á af mörgum hv. þingmönnum er að takmarka ekki tjáningarfrelsið. Málið er því tiltölulega viðkvæmt og flókið en við verðum sannarlega að bregðast við vegna þess að við skynjum það í svona málum, við skynjuðum það um helgina og við höfum áður skynjað það, að varnir okkar gegn þessu eru nokkuð óljósar. Það er vegna þess að hér er á ferðinni, líkt og hv. þingmaður benti á, fyrirtæki sem er í einkaeigu og bregst þannig við og er í raun og veru í sjálfsvald sett hvernig það vinnur nema það sé skýrt að verið sé að brjóta íslensk lög. Þá getur lögregla auðvitað brugðist við og hefur ákveðinn ramma til að gera það og ákveðnar eftirlisstofnanir líka.

Svarið við spurningunni um það hvort ákveðið hafi verið að skoða þetta lagaumhverfi og skoða hvort við þurfum að flytja frumvarp eða mæta þessum aðstæðum með einhverjum hætti er já.