144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

LungA-skólinn.

[13:52]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin og skil auðvitað alveg að hæstv. ráðherra fari sér svolítið hægt. Það er verið að skera niður á þessu svæði en þessi skóli er ekki bara endilega á framhaldsskólastiginu. Hann er fyrir krakka sem ætla kannski að taka sér hlé í framhaldsskóla. Og að stunda eitthvert svona nám getur leitt til þess að þeir haldi áfram eða finni eitthvað sem hentar betur. Það er sú hagkvæmni sem ég vil benda á að á endanum mun stuðningurinn við öll svona kerfi hjálpa okkur og draga úr kostnaði annars staðar, draga úr kostnaði við brottfall og annað.

Ég hvet hæstv. ráðherra áfram í því en vil minna á að tíminn er núna. Það þýðir ekki að láta þennan skóla bíða, hann leggur þá upp laupana ef hann fær ekki styrka stoð í sitt grunnstarf.