144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

LungA-skólinn.

[13:53]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni hvað varðar fjárfestingu í menntun, að hún skili sér. Við erum núna að auka framlagið til framhaldsskólastigsins, við erum að auka þar við fjármuni, en við eigum enn töluvert eftir til að ná þeirri stöðu sem var hér fyrir hrun og vinna til baka þann mikla niðurskurð sem varð á undanförnum árum, um það bil 2 milljarða, til að koma framhaldsskólastiginu í rétt horf. Þess vegna hef ég því miður þurft að vera mjög aðhaldssamur og passasamur með að fara ekki af stað með ný verkefni meðan ég get ekki fjármagnað þau verkefni ég hef fyrir framan mig. Það breytir ekki því að það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir að þarna er um að ræða áhugaverða nýjung. Það er sjálfsagt mál fyrir okkur að skoða þetta, en ég set þessa fyrirvara.

Ég vil líka nefna að það er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, að brotthvarf er vandamál hjá okkur en það er ekki bara brotthvarfið, það er líka námsframvindan. Námsframvinda á Íslandi er slök og í alþjóðlegum samanburði er hún mjög slök, lélegri en hjá flestum öðrum þjóðum sem við berum okkur saman við. Það er því ekki bara brottfall, það er líka námsframvinda sem við þurfum að bæta.