144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

höfundaréttur og hljóðbækur.

[13:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hvað varðar fyrri þáttinn sem snýr að hljóðbókunum almennt og aðgengi þar að skal ég játa að ég þekki það ekki út í hörgul, en þetta er ágæt ábending og sjálfsagt að skoða það.

Hvað varðar aftur á móti seinni hlutann sem er veigameiri þátturinn í fyrirspurn hv. þingmanns, um höfundaréttarákvæðin og samspil höfundaréttar við listsköpun og dreifingu á list, þarf að hafa það sjónarmið í huga, og það er það sem ég horfi sérstaklega til, að tryggja verður að sá sem býr til listaverkið, listamaðurinn, njóti ávaxtanna af listsköpun sinni. Þá gildir einu hvort um er að ræða sjálfan höfundinn eins og hér er nefnt varðandi þá ágætu bók Veröld sem var, sem auðvitað er látinn fyrir margt löngu, eða þýðandann sem er hluti af listaverkinu, í það minnsta eins og það birtist okkur hér, það að lesa upp þá þýðingu sem sá einstaklingur hafði lagt vinnu, orku og tíma í hlýtur að vera þannig að hann eða hún eigi rétt á því að njóta ávaxtanna af þeirri vinnu sinni.

Það er ein af grundvallarforsendum þess að menn ráðast í listsköpun einhvers konar að tryggt sé að þeir hafi áfram forræði og yfirráðarétt yfir listaverkinu.

Ég átta mig vel á því sem hv. þingmaður er að fara en mitt svar er þarna að grundvallarhugsunin sé sú að eignarréttindi á slíkum verkum eru ekkert minna mikilvæg en eignarréttindi á öðrum hlutum, fyrirtækjum eða eignum manna eða einhverju þess háttar.