144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

höfundaréttur og hljóðbækur.

[14:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar það að kaupa og neyta hljóðbóka get ég fullvissað þingmanninn um að ég hef allan metnað til þess að aðgengi að þeim sé óheft og sem best, auðvitað þó þannig að fyrir það sé greitt sanngjarnt og eðlilegt gjald.

Þá komum við að fyrri þættinum sem snýr að höfundarétti og möguleikum manna til að nýta sér listaverk annarra, hvort sem er til þýðinga eða upplesturs eða hvað það nú er. Það þarf að vera tryggt að þeir sem skópu listaverkin njóti með eðlilegum hætti afraksturs af verkum sínum. Það verður ekki gert nema að tryggja eignarrétt þeirra. Ég held að það mundi fljótt grafa mjög undan listsköpun ef það yrði ekki þannig. Ég vil nefna dæmi sem er alvöruvandamál hjá okkur, en það er niðurhal á talsettum barnamyndum. Erlendar barnamyndir koma hingað til landsins og þær eru talsettar en þeim er síðan dreift á netinu og er halað niður. Það hefur gert að verkum að þessi mikilvæga starfsemi, talsetning á barnaefni, er í hættu. Viðskiptamódelið þar undir stendur illa undir sér (Forseti hringir.) vegna þess að verið er að ganga á höfundarétt þeirra sem hafa unnið vinnuna.