144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

úthlutun menningarstyrkja.

[14:14]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Stjórnarandstaðan virðist hafa valið þennan dag til að endursýna gamalt efni. Fyrst kemur hv. þm. Össur Skarphéðinsson og spyr út í 16 mánaða gömul ummæli úr útvarpsviðtali og svo er hér efnt til sérstakrar umræðu um lið á fjárlögum sem samþykktur var árið 2012. En gott og vel. Förum yfir þetta mál eina ferðina enn.

Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var málaflokkur menningararfs fluttur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til forsætisráðuneytisins. Skilgreining á hugtakinu menningararfur í starfi forsætisráðuneytisins endurspeglast í forsetaúrskurði og lögum um menningarminjar.

Fyrirspurnum um styrkveitingar á sviði menningarminja og um málefni menningararfs hefur áður verið svarað á vettvangi Alþingis eins og ég gat um með ítarlegum hætti, m.a. fyrirspurn frá hv. málshefjanda, Brynhildi Pétursdóttur, og tel ég rétt að árétta nokkur atriði úr þeim svörum.

Ég vil undirstrika þegar í upphafi máls míns að það er með hreinum ólíkindum að hv. þingmenn skuli ítrekað gagnrýna mál og málaflokk sem hefur verið stórbættur eftir niðurskurð og vanrækslu fyrri ríkisstjórnar. Þessi mikilvægi málaflokkur hefur í raun verið í svelti og alls ekki nægur sómi sýndur. Nú þegar ný ríkisstjórn er að stórefla málaflokkinn bregður svo við að þingmenn sjá ástæðu til að gagnrýna í stað þess að fagna þeim fjölmörgu verkefnum sem er unnið að um allt land. Þetta er með hreinum ólíkindum.

Við úthlutun styrkja í desember 2013 var verið að ljúka ráðstöfun fjárheimilda af sérstökum fjárlagalið sem við í forsætisráðuneytinu ákváðum að eigin frumkvæði að leggja til við Alþingi að yrði lagður niður. Um var að ræða fjárlagalið sem fyrri ríkisstjórn hafði beitt sér fyrir til frjálsrar ráðstöfunar fyrir þáverandi ráðherra og svo ráðherranefnd um atvinnumál. Eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar auglýsti ráðherra málaflokksins, ráðherranefndin eða ráðherrarnir sem í henni sátu hvorki eftir styrkjum né viðhöfðu annað mat sem tryggt gæti jafnræði í tíð fyrri ríkisstjórnar. Athyglisvert er að Ríkisendurskoðun gagnrýnir þær úthlutanir og telur að ekki hafi faglegt mat legið til grundvallar.

Úthlutun sú sem ég stóð fyrir í árslok 2013 var einskiptisaðgerð þar sem fjölmörg verkefni voru valin á grundvelli fyrirliggjandi gagna og/eða umsókna sem lágu fyrir í ráðuneytinu, hjá Minjastofnun Íslands, Þjóðminjasafninu og húsafriðunarnefnd og jafnframt var leitað álits og umsagnar þessara fagaðila við mat á verkefnunum. Brýn verkefni á sviði húsafriðunar og menningarminjaverndar eru vel þekkt og hafa verið kortlögð í starfi húsafriðunarnefndar um árabil, Þjóðminjasafns Íslands og Minjastofnunar Íslands. Því var mögulegt að nálgast verkefnið á faglegum grunni og gæta jafnræðissjónarmiða án þess að auglýst væri eftir umsóknum.

Segja má að faglegt val verkefnanna sé staðfest í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem engar athugasemdir eru gerðar við verkefnavalið. Úttekt Ríkisendurskoðunar staðfestir að farið hafi verið að lögum við úthlutun styrkjanna. Meginábyrgð Ríkisendurskoðunar til forsætisráðuneytisins er að ráðuneytið setji sér verklagsreglur um styrkveitingar. Eins og fram kemur í skýrslunni tekur ráðuneytið undir að æskilegt sé að setja slíkar reglur, þ.e. ef reglulegar styrkveitingar af safnliðum yrðu í framtíðinni teknar upp í forsætisráðuneytinu.

Svo ég ítreki það þá tókum við upp á því að eigin frumkvæði að hverfa frá því fyrirkomulagi sem síðasta ríkisstjórn kom á og það var gert áður en Ríkisendurskoðun gerði athugasemdir við þetta fyrirkomulag síðustu ríkisstjórnar.

Að mati Ríkisendurskoðunar beindi forsætisráðuneytið styrkveitingum í faglegt ferli með því að fela Minjastofnun Íslands að annast samningagerð vegna styrkjanna, greiðslu þeirra og eftirfylgni með verkefnum. Mörg þeirra verkefna sem hlutu styrk eru þegar komin í góðan farveg og það er mjög ánægjulegt að fylgjast með framvindu þeirra.

Það hefur verið áhersla mín í samræmi við stefnuyfirlýsinguna að efla starfsemi á sviði menningararfs og sömuleiðis að efla hina faglegu sjóði á því sviði. Það hef ég þegar ákveðið að gera með verulega auknu framlagi til þessara mikilvægu sjóða og stefnt er að því að gera það áfram á næstu árum. Það er sannarlega mikilvægt og tímabært miðað við áherslur fyrri ríkisstjórnar sem vanrækti mikilvægt hlutverk sitt um verndun menningarminja á Íslandi. Samþykkt voru ný lög um menningarminjar á síðasta kjörtímabili án þess að þeim fylgdi stuðningur til að framfylgja þeim. Sjóðirnir voru ekki efldir og stofnanir sameinaðar án þess að því fylgdi nauðsynlegt fjármagn. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum en ég kem hingað aftur og fjalla þá sérstaklega um skilgreiningu á grænu hagkerfi auk annars.