144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

úthlutun menningarstyrkja.

[14:20]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra er glaður og reifur eins og endranær og svarar spurningum þingmanna og gagnrýni þeirra af alúð og undirgefni, ef svo má að orði kveða.

Þegar ríkisstjórnin tók við völdum heyrðist gjarnan að þetta væri allt saman ómögulegt, ekkert af þessu fólki hefði gegnt ráðherraembætti, það væri flest ungt og reynslulaust. Sannast að segja var ég alls ekki sammála því. Mér fannst það eiginlega mest spennandi við nýju ríkisstjórnina að ekkert þeirra sem þar var hefði setið þar fyrr og þess vegna mætti búast við nýjum vinnubrögðum. Það er nú svo að þegar vonast er eftir nýjum vinnubrögðum eru betri vinnubrögð oft innifalin.

Því verður ekki neitað að ég hef orðið fyrir vonbrigðum en vissulega hafa vinnubrögðin breyst, eins og sést á úttekt Ríkisendurskoðunar sem fjallar um fjárveitingar úr forsætisráðuneytinu, en þau eru ekki ný heldur er horfið aftur til gamalla tíma þegar stjórnmálamenn útdeildu opinberu fé að eigin geðþótta og áhugamálum. Á seinni árum höfum við einmitt reynt að útrýma þessu og það hafði tekist að stórum hluta, t.d. með því að færa hina svokölluðu safnliði frá fjárveitinganefnd en þá gengu menn á fund þingmanna og fengu einhverjum sporslum úthlutað eins og fjármögnun Þorláksbúðar er alræmd fyrir.

Þegar ríkisstjórnin var mynduð voru málaflokkar fluttir á milli ráðuneyta til að koma til móts við áhugamál hæstv. forsætisráðherra. Sum verkefnin voru reyndar aftur flutt til síns heima. Þegar leið að árslokum bretti hann síðan upp ermar og hóf að úthluta fjármunum á báða bóga, þar á meðal til verkefna sem hægt var að sækja um styrki fyrir úr lögbundnum sjóðum. Slíkar úthlutanir gengu beinlínis gegn áherslum Alþingis frá árinu 2011. (Forseti hringir.)

Því miður finnst manni stundum finnst eins og (Forseti hringir.) Alþingi skipti hæstv. ríkisstjórn ekki nokkru máli.