144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

úthlutun menningarstyrkja.

[14:29]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að þessi umræða er loksins á dagskrá hér. Þetta er um margt áhugavert og alvarlegt mál sem þarf að ræða.

Ráðherranefnd um atvinnumál og fjölgun vistvænna starfa var komið á fót eftir dálítinn aðdraganda. Hún á sér rætur í því sem kallað var og heitir Sóknaráætlun 20/20, sem var yfirgripsmikil vinna, samráð við sveitarstjórnarmenn, hagsmunaaðila, atvinnulíf um allt land, um þær áherslur sem ætti að leggja í atvinnuuppbyggingu og til sóknar fram til ársins 2020 í hverjum landshluta. Ráðherranefnd um atvinnumál og fjölgun vistvænna starfa átti sér líka stoð í þverpólitískri vinnu um uppbyggingu græna hagkerfisins. Það var nefnd sem fundaði um 50 sinnum og skilaði frá sér í samstöðu tillögum um rúmlega 50 verkefni til uppbyggingar græna hagkerfisins. Allt þetta byggði sem sagt á gagnsæju ferli, fagmennsku og það voru settir peningar í þetta.

Síðan tekur við ný ríkisstjórn og hún leggur niður þessa ráðherranefnd. Eftir standa 175 milljónir í fjárlagaliðnum og þeir peningar eru einfaldlega teknir og settir í annað án heimildar frá Alþingi. Það vill svo til að hæstv. forsætisráðherra hefur áhuga á húsafriðun og minjavernd. Ég hef alveg áhuga á því líka en það er ekki hægt að deila bara út peningum á grundvelli áhugasviðs hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra gæti allt eins haft áhuga á íþróttum og viljað byggja upp íþróttamannvirki um allt land og getað á sama hátt kallað þau vistvæn. (Gripið fram í.) Það hefði verið jafn undarlegt. (Forseti hringir.)

Ég velti fyrir mér hvort svona meðferð á fjárlagalið (Forseti hringir.) standist einfaldlega lög.