144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

úthlutun menningarstyrkja.

[14:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Annað sem er áhugavert í þessu máli er tilfærsla fjárlagaliða á milli stofnana og nýir liðir sem verða til. Fjárlagaliður sem kallaðist Grænt hagkerfi, ýmis verkefni, gamli liðurinn, var felldur niður í fjármálaráðuneyti, mínus 280 milljónir. Sami liður var búinn til í umhverfis- og auðlindaráðuneyti upp á 75 milljónir. Nýr fjárlagaliður um grænt hagkerfi, eitthvert langt nafn, var aftur búinn til í fjármálaráðuneyti, hann var upp á 165 milljónir, samtals 240 milljónir. Þar á milli eru 40 milljónir sem fóru eitthvert, ég veit ekki hvert þær fóru.

Í skýrslunni er fjallað um úthlutun 205 milljóna; 175 milljóna frá liðnum Atvinnuuppbygging og fjölgun vistvænna starfa og 30 milljóna úr þessum nýja lið um græna hagkerfið. En það er ekkert fjallað um það í skýrslunni hvað hafi verið gert við þær 135 milljónir sem voru eftir af þeim 165 sem þarna urðu til. Ég veit ekki eiginlega hvert þær fóru, kannski hæstv. ráðherra kunni svörin við því.

Ég fagna því að framlög til málaflokksins hafi verið aukin, nú vonandi í réttu og góðu og löglegu ferli. En það sem stendur upp úr í þessu öllu saman er geðþóttaákvörðun hæstv. ráðherra í úthlutun styrkja og hversu háir þeir eru og eðlismunur þeirra verkefna sem voru styrkt og þeirra verkefna sem voru áður styrkt. Það verður ákveðin tilfærsla á milli fjárlagaliða sem fólk er að vesenast með og pæla í hvort að réttum vinnubrögðum hafi verið beitt. Það er ekki búið að útskýra hvað varð um afganginn af peningunum.