144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar frumvarp um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána var til umræðu á Alþingi varaði ég margsinnis við þeirri hættu sem í því fælist. Verið væri að búa til mismunun milli fólks í sambærilegri stöðu því að sagt var að draga ætti frá leiðréttingunni það sem hefði komið í gegnum skuldaúrræði sem voru almennt viðurkennd með sérstöku nafni, eins og sértæka skuldaaðlögun en ekki önnur úrræði. Á það var ekki hlustað.

Nú er lögð fram lagabreyting sem á að ná, virðist vera, yfir svipuð úrræði. En það er afskaplega erfitt að finna hver afmörkunin er. Hér virðist vera um að ræða fordæmalaust framsal ákvörðunarvalds til stjórnvalda um að úrskurða að þessi fái og hinn ekki.

Ég spyr hæstv. ráðherra þess vegna: Hvernig ber að skilja orðin „önnur almenn lækkun eða niðurfelling fasteignaverðkrafna“? Hvað er almenn lækkun? Það eru mörg dæmi um að menn hafi fengið frá og með því því tímabili sem hér er líka verið að binda í lög, 1. janúar 2008 og áfram, ýmiss konar skuldaúrlausnir með lækkun án tillits til greiðslugetu. Og ég spyr: Hvaða mörk eru fyrir því? Hvað þurfa margir að hafa fengið slíka úrlausn til að það teljist almenn lækkun? Hvað er sértæk lækkun? Hver er munurinn, virðulegi forseti?